Mikilvægt að upplýsa moskumálið

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Mér þótti þessi frétt einfaldlega vekja upp spurningar. Í fyrsta lagi hvort búið sé að tryggja eitthvert fjármagn, í annan stað hvort því fylgi einhver skilyrði og upplýsa málið,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is vegna frétta í gær af því að stjórnvöld í Sádi Arabíu ætli að leggja sem nemur 135 milljónum króna til moskubyggingar hér á landi.

Dagur skrifaði á Facebook-síðu sína í gær að málið þarfnaðist að hans mati skýringa og umræðu. Hann hafi óskað eftir því við mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar að hún aflaði upplýsinga um málið sem og reynslu nágrannaþjóða í þessum efnum og annað sem kynni að skipta máli. Undir þetta tók Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og sagði að spyrja þyrfti þeirrar spurningar hvað einræðisríkjum eins og Sádi Arabíu, sem virtu ekki grundvallarmannréttindi, gengi til með slíkum fjárframlögum. 

Spurður hvort borgaryfirvöld geti aðhafst eitthvað ef í ljós kemur að fjármagna eigi byggingu mosku með einhverjum hætti sem þau telji óásættanlegt segir Dagur að það sé ekki ljóst en það yrði einfaldlega að skoða ef sú staða kæmi upp. „En ég áskil mér allan rétt á að hafa skoðun á málinu. Mér finnst það vera hluti af því að búa í opnu og frjálsu samfélagi að koma jafnt fram við trúfélög og mismuna þeim ekki. En að sama skapi er hluti af því að búa í slíkum samfélagi sem leggur áherslu á mannréttindi að hafa skoðun á því sem fram fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert