Svona verður moskan

Moskan mun rísa við Suðurlandsbraut.
Moskan mun rísa við Suðurlandsbraut. Skjáskot úr samkeppnislýsingu fyrir byggingu mosku Félags múslima á Íslandi

Félag múslima á Íslandi hefur blásið til hönnunarsamkeppni um mosku félagsins sem til stendur að byggja við Suðurlandsbraut. Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður félagsins, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að gert væri ráð fyrir að verkið myndi kosta á bilinu 300 til 400 milljónir.

Arkitektafélag Íslands hefur birt samkeppnislýsinguna á vef sínum og gefur hún skýrari mynd á moskuna sem hefur lengi verið umtalaðasta bygging landsins þrátt fyrir að hafa enn ekki verið byggð. Verðlaunafé fyrir þrjár bestu tillögurnar verður samtals fimm milljónir en besta tillagan verður launuð með minnst 2,5 milljónum króna. Í dómnefnd sitja fulltrúar Félags múslima, fulltrúar Arkitektafélagsins og fulltrúar Reykjavíkurborgar og gert er ráð fyrir að sigurtillögurnar verði kynntar um miðjan júní 2015.

Turninn mest 19,5 metrar

Í samkeppnislýsingunni eru tekin fram fimm atriði sem sérstaklega verður horft til við mat á tillögum.

-Að útlit byggingarinnar endurspegli arkitektúr í miklum gæðum.
-Að byggingin sé falli vel að umhverfi sínu.
-Að ytra og innra skipulag samræmist nýtingu og starfsemi moska.
-Að efnisval er viðeigandi fyrir áætlaða starfsemi og stuðlar að hæfilegum byggingar og viðhaldskostnaði.
-Að umhverfisvænni lausn sé beitt.

Gert er ráð fyrir að moskan verði í allt 670 fermetrar og að veggir og umferðarsvæði s.s. bílastæði verði um 130 fermetrar. Moskan má mest vera á tveimur hæðum en hún má þó ekki vera hærri en 9,5 metrar. Þó skal vera lítill bænaturn, sem er um 20 fermetrar að stærð og mest 19,5 metrar á hæð. Gert skal ráð fyrir 16 bílastæðum, þar af tveimur fyrir fatlað fólk.

Eldhús fyrir 100 manns

Samkvæmt samkeppnislýsingunni mun starfsemi moskunnar vera skipt í tvö svæði, annars vegar bænasal og herbergi tengd honum og hinsvegar svæði ætlað til funda og rannsókna. Skipulag bænasalsins mun þurfa að taka mið af Mekku, höfuðborg Sádi Arabíu, enda munu gestir moskunnar snúa í átt að borginni þegar þeir biðjast fyrir. Lofthæð í salnum á að vera minnst sex metrar.

Gert skal ráð fyrir samkomusal þar sem 100 manns geta sest til borðs og skal vera í honum lítið svið. Þá kemur fram í samkeppnislýsingunni að samkomusalinn ætti að vera hægt að tengja bænasalnum svo hægt sé að nota rýmin sem eina heild. Einnig skal gert ráð fyrir eldhúsi þar sem hægt er að elda mat fyrir u.þ.b. 100 manns með tilheyrandi tækjum, tólum og geymslum.

Einnig verður bókasafn með lestraraðstöðu fyrir fjóra og skólastofa fyrir allt að 20 nemendur.

Kynjaskiptar skógeymslur

Í almennum svæðum moskunnar verður gert ráð fyrir anddyri sem kemur í veg fyrir að vindur blási inn í bygginguna og forsal þar sem fólk getur safnast saman áður en gengið er inn í önnur rými moskunnar. Hæfileg salernisaðstaða fyrir 300 manns verður einnig til staðar, 20 lokuð salerni þar af tvö fyrir fólk með hreyfihömlun. Fatahengi á að geta tekið á móti yfirhöfnum 300 einstaklinga og sama fjöldatala gildir fyrir skógeymsluna sem á að vera nálægt innganginum og kynjaskipt. Aðstaða til táknræns líkamsþvottar á einnig að vera kynjaskipt.

Þá verður aðstaða til líksmurninga í moskunni. Sérstaklega er tekið fram að greftrun muni fara fram eins fljótt og mögulegt er samkvæmt hefðum íslam.

Fréttir mbl.is:

„Þiggja ekki gjafir fastistaríkis“

Vilja að styrkurinn verði rannsakaður

Saudi Arabar styrkja byggingu mosku

Banna erlenda fjármögnun moska

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka