Margt fór úrskeiðis í ferðaþjónustunni

Fáar jákvæðar fréttir hafa borist um Ferðaþjónustu fatlaðra síðan nýtt …
Fáar jákvæðar fréttir hafa borist um Ferðaþjónustu fatlaðra síðan nýtt kerfi var sett á laggirnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Margt fór úrskeiðis hjá sveitarfélögum og Strætó þegar ferðaþjónusta fatlaðs fólks var undirbúin og alvarlegur skortur var á samráði við hagsmunasamtök fatlaðra. Þetta er niðurstaða skýrslu sérstakrar stjórnar sem sett var yfir ferðaþjónustuna. Skipuleggja þarf rekstur þjónustunnar upp á nýtt.

Stjórnin, sem nefn hefur verið neyðarstjórn og var undir formennsku Stefáns Eiríkssonar, fv. lögreglustjóra, skilaði skýrslu sinni til eigenda og stjórnar Strætó í dag. Henni var falið að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks og gera tillögur um breytingar á fyrirkomulagi og framkvæmd þjónustunnar eftir að fjöldi mála kom upp um misbresti í þjónustunni.

Niðurstaða stjórnarinnar er að mjög margt hafi farið úrskeiðis við undirbúning verkefnisins, bæði hjá sveitarfélögunum og Strætó. Alvarlega hafi skort á samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur þjónustunnar. Verkefni á borð við þetta hafi ekki verið vel til þess fallið að setja í útboð á þann hátt sem gert var.

Skipuleggja þurfi reksturinn upp á nýtt. Þó að neyðarstjórnin hafi stuðlað að ýmsum lagfæringum sé margt óunnið. Í þessu skyni leggur stjórnin til að tímabundið verði starfrækt sérstök stjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó og hún ráði sérstakan stjórnanda yfir þjónustuna sem muni bera ábyrgð á innleiðingu breytinga sem lagðar eru til í skýrslunni.

Þjálfun bílstjóra verði stóraukin

Á meðal þessara breytingatillagna er að ferðir verði skipulagðar með föstum hætti í mun meira mæli og að þær verði svæðisbundnari en áður. Sveigjanleiki verði aukinn til að koma til móts við einstaka notendur þjónustunnar. Sérstakir þjónustufulltrúar verði fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks í þjónustuveri Strætó og sérhæfing þar aukin.

Þá er lagt til að þjálfun bílstjóra verði aukin til muna og tölvu- og símakerfið verði skoðað á hlutlausan hátt og það borið saman við aðra möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert