Treystir dómgreind múslíma

Múslímar á Íslandi biðja. Myndin er úr safni.
Múslímar á Íslandi biðja. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki stendur til að Reykjavíkurborg afturkalli lóðaúthlutun undir mosku. Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs borgarinnar, segist treysta dómgreind múslíma á Íslandi um að fara eftir lögum og brjóta ekki á mannréttindum fólks.

Fram kom á fundi forseta Íslands með nýjum sendiherra Sádí-Arabíu í gær að yfirvöld í Sádí-Arabíu ætli að leggja fram um 135 milljónir króna til byggingar mosku í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, greindi í kjölfarið frá því að hann hafi óskað eftir því að mannréttindaskrifstofa borgarinnar afli upplýsinga um fjármögnun moskunnar.

„Þessi fyrirspurn borgarstjóra hefur bara sinn gang inni á mannréttindaskrifstofu. Það verður bara skoðað hvernig þetta hefur verið gert á Norðurlöndunum og hvort þessum peningagjöfum fylgja einhver skilyrði,“ segir Líf.

Má spyrja um fjármögnun annarra trúfélaga

Sjálf frétti hún fyrst af fjármögnuninni í fréttum í gær í kjölfar heimsóknar sendiherrans. Hún hafi ekki miklar áhyggjur af henni en það sé alltaf gott að vera gagnrýninn og taka afstöðu með mannréttindum sama hvaða ríki eða hver eigi á í hlut. Gott sé að fá allar upplýsingar upp á borðið.

„Það má alveg í þessu samhengi velta fyrir sér fjárveitingum til kaþólsku kirkjunnar og smærri trúarsafnaða sem hafa ekki viðurkennt réttindi samkynhneigðra til dæmis,“ segir Líf.

Borgin hafi ekki beina aðkomu að starfi Félags múslíma á Íslandi.

„Þetta eru bara frjáls félagasamtök og borgin hefur ekki bein áhrif á hvernig þau haga sínu starfi nema hún styrki félagasamtök með beinum hætti. Við biðjum alla um að fara eftir mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og gerum ráð fyrir því að það sé gert. Við gefum náttúrulega engan afslátt af mannréttindum. Ég treysti múslímum á Íslandi til að taka réttar ákvarðanir, fara eftir lögum og brjóta ekki á mannréttindum fólks,“ segir hún

Líf segist ekki telja að neinn ætli að leggja í þá vegferð að afturkalla úthlutun lóðarinnar til Félags múslíma á Íslandi.

„Auðvitað veltir maður fyrir sér hvort eitthvað hangi á spýtunni, rétt eins og umræðan hefur verið þegar fyrirtæki styrkja stjórnmálaflokka, en það þarf ekki að vera að það geri það alltaf. Í fullkomnum heimi á fólk ekki að vera þrælar fjármagnsins. Það er það sem borgarstjóri veltir fyrir sér en ég hugsa að þetta kalli ekkert á aðgerðir borgaryfirvalda. Það stendur ekki til að afturkalla lóðina,“ segir Líf.

Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.
Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka