Rúta á hliðina í Hvalfirði

mbl.is/Kristinn

Rúta með 30 börn og þrjá fullorðna innanborðs valt á hliðina í Hvalfirði rétt fyrir hádegi, við afleggjarann að Vatnaskógi. Enginn slasaðist alvarlega en fjórir voru fluttir á sjúkrahús til skoðunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarfélag Akraness var kallað á staðinn og hefur verið til aðstoðar á slysstað, m.a. við að ferja börnin niður brekkuna frá Hótel Glym, þar sem þau hafa samastað, niður í aðra rútu sem bíður þess að flytja þau í bæinn. Svæðisstjórn björgunarsveita á Vesturlandi kom einnig saman og vinnur að verkefnum tengdum slysinu.

Samkvæmt Skessuhorni voru börnin á leið í skákbúðir. Á vefsíðunni skak.is er að finna tilkynningu þess efnis að allir séu heilir á húfi, en rútan hafi verið á litlum hraða þegar slysið átti sér stað.

„Hætt hefur verið við búðirnar út af þessum atburði og unnið er að því að koma þátttakaendum heim. Fjórir voru sendir með sjúkrabíl en meiðsli þeirra eru algjörlega minni háttar. Brottför er líkleg á næstunni og er stefnan sett aftur til baka á Rimaskóla!“ segir í tilkynningunni, sem var sett inn kl. 13.

Að sögn blaðamanns Skessuhorns liggur rútan á hliðinni utan vegar í brekkunni upp að Hótel Glym. Hann segir fljúgandi hálku í brekkunni og varla stætt.

Miðillinn segir að flestir farþegar hafi getað gengið frá rútunni að hótelinu eftir slysið. Þá muni áfallateymi taka á móti þeim í Rimaskóla.

Á vef Skessuhorns má sjá myndir af vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert