„Ég er ekki á flótta undan fjölmiðlum“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að rannsókn lögreglu í lekamálinu hafi beinst að því hver lak minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla. Hún sendi hins vegar gögn um málið daginn eftir að minnisblaðinu var lekið.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, hafnar því að Persónuvernd hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi brotið lög er hún sendi aðstoðarmanni innanríkisráðherra gögn um hælisleitenda í tölvupósti. Þetta kom fram í viðtali við hana í þættinum Eyjunni á Stöð 2 síðdegis.

Gögnin sendi hún aðstoðarmanninum, Gísla Frey Valdórssyni, daginn eftir að minnisblað úr innanríkisráðuneytinu um mál hælisleitandans var lekið til fjölmiðla. Gísli Freyr játaði síðar að hafa lekið upplýsingunum.

„Ég vissi sem sagt ekki að þetta hefði ekki fylgt málinu til ríkissaksóknara og ég ræddi þetta stuttlega við ríkissaksóknara og okkar sameiginlega niðurstaða var sú að líklega hefði það verið að þetta er sólarhring eftir lekann. Rannsókn málsins snýst um það að upplýsa hvernig minnisblað úr ráðuneytinu lak í fjölmiðla,“ sagði Sigríður Björk á Eyjunni.

Stöð 2 sagði í sjónvarpsfréttum sínum í kvöld að ítrekað hefði verið reynt að fá viðtal við Sigríði Björk um lekamálið. Á Eyjunni sagði hún: „Ég er ekki á flótta undan fjölmiðlum. Alls ekki.“

Sigríður Björk var í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku. Hér má lesa viðtalið í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka