Gekk fyrir lestinni ofan af heiði

Björgunarstörf á Holtavörðuheiði í dag.
Björgunarstörf á Holtavörðuheiði í dag. Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson

Það tók Rúnu Kristínu Sigurðardóttur og fjölskyldu hátt í fimm tíma að komast ofan af Holtavörðuheiði í dag, en það hafðist ekki fyrr en Rúna tók sig til og gekk á undan bílalest í vonskuveðri.

Þau eru nýlent í Staðarskála, þar sem 200 manns biðu þess um kvöldmatarleytið að heiðin yrði opnuð.

„Ætli þetta sé ekki búið að taka okkur fjóra, fimm tíma að fara yfir heiðina, og svo þegar losnaði loksins um hnútinn var ekkert skyggni þannig að ég vippaði mér bara út og labbaði fyrir lestinni,“ segir Rúna, en hún telur að hún hafi gengið í rokinu og kuldanum í vel á aðra klukkustund.

Hún segir að fjöldi bíla hafi elt hana, að minnsta kosti tugur. Fremstur í lestinni fór eiginmaður Rúnu og þrjú ungmenni.

„Maðurinn minn bara fylgdi mér og ég veifaði til hans ef hann var að fara of utarlega. Og svo elti hann mig. En svo var svo rosalega hvasst að maður gat eiginlega ekki staðið,“ segir Rúna, en samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni Húna var vindhraði á heiðinni yfir 20 m/s um rétt fyrir kl. 20.

Skyggnið var ekkert.

„Það var hátíð ef við sáum tvær stikur, en oftast var það bara engin. Þetta var svona gamaldags íslenskt veður, eins og við erum vön á Norðurlandi,“ segir Rúna, sem býr á Dalvík.

Rúna og fjölskylda, sem voru á leið heim eftir skemmtiferð suður, festu ekki bílinn en aðrir voru ekki svo heppnir. „Svo var náttúrlega líka bara fólk að fara fram úr, sem var ekki gáfulegt, og mikil umferð á móti líka. Þannig að það var bara hnútur alls staðar,“ segir hún.

Þar sem Rúna gekk voru vegirnir nokkuð lausir við snjó, en hálir. „Það var aðallega þar sem bílarnir voru stopp þar sem voru komnir skaflar. Þar var búið að skafa í skafla. En annars var ekki mikið á veginum. En hálka,“ segir hún.

Þegar mbl.is náði tali af Rúnu sagðist hún þreytt og blaut inn að beini og hugðist freista þess að komast í þurr föt. Hún segir að ekkert vit hefði verið í því að skiptast á að ganga fyrir bílalestinni.

„Ég var hvort eð er orðin svo blaut og það væri svo vitlaust að láta aðra blotna. Þá yrði bara fleirum kalt. Og svo vorum við með þrjá unglinga með okkur þannig að það var ekkert sniðugt að skiptast á,“ segir hún.

Nú liggi fyrir að matast, taka stöðuna á veðrinu og ákveða um framhaldið.

Skyggni: Ekkert

„Rosafjör“ í Staðarskála

Rúna Kristín Sigurðardóttir
Rúna Kristín Sigurðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert