Þjálfari hjá Seaworld í Bandaríkjunum lenti í lífshættu er háhyrningur, sem veiddur var við Íslandsstrendur, dró hann á kaf í lauginni. Hann er nú hættur störfum hjá sædýrasafninu umdeilda og gagnrýnir harðlega aðbúnað þjálfara og dýra.
John Hargrove er rúmlega fertugur. Er hann var 27 ára gamall þjálfaði hann háhyrninginn Freyu sem veidd var við Ísland í október árið 1982. Freya dró hann á bólakaf í laugina og tennur hennar þrýstust að mjaðmabeinum hans. Honum leið eins og „spýtu í hundskjafti“ og er Freya sleppti loks takinu í smá stund og hann komst upp til að anda gat hann gefið samstarfsfólki merki um að hringja á sjúkrabíl. Hann bjó sig svo undir að verða dreginn í kaf aftur.
Freya sleppti honum loks og hann gat komist á þurrt. „Ég hélt að þessi dagur yrði minn síðasti,“ segir í hann í samtali við vefsíðuna The Dodo.
Hargrove komst oft í hann krappan í starfi sínu. Hann slasaðist reglulega, m.a. brotnuðu rifbeinin, fingur hans og tær og þá hlaut hann áverka á andlit. Hann varð m.a. einu sinni fyrir því að stór hvalur synti beint á bakið á honum.
Hargrove, sem vann hjá Seaworld í um tvo áratugi, kennir dýrunum ekki um heldur því að þau hafi verið lengi í haldi og orðið leið á því að synda um í litlum laugum. Fyrir þremur árum ákvað hann að segja skilið við Seaworld.
„Maður elskar þessa hvali en það er ekki nóg,“ segir Hargrove.
Hargrove segir þjálfara oft hafa slasast suma mjög alvarlega. Einn hafi m.a. misst handlegg. Tveir létu lífið.
Árið 2009 drap háhyrningurinn Keto hinn 25 ára gamla þjálfara, Alexis Martinez. Þá var dýrið í láni í sædýrasafni á Spáni. Martinez blæddi út enda hlaut hann mörg sár á líkamann. Hann lést samstundis. Það sem Hargrove gagnrýnir er að aðrir þjálfarar hafi ekki verið látnir vita af því hvernig dauða hans bar að.
„Tveimur dögum síðar var ég að synda með hvölum í San Antonio,“ segir Hargrove og gagnrýnir fyrrverandi forstjóra Seaworld, Jim Atchison, harðlega. „Í fjölmiðlum sagði hann að við værum svo þétt fjölskylda og að til öryggis myndu þjálfar ekki fara ofan í laugarnar á meðan mál sem þessi væru rannsökuð. Það var ekki gert í tilfelli Alexis því að þeim var alveg sama.“
Fáir vissu hvernig dauða Martinez var að fyrr en því var uppljóstrað í sjónvarpsþætti hjá Larry King árið 2010. Dauði hans hefði því engu breytt fyrir aðra þjálfara.
Annar þjálfari hjá Seaworld, Dawn Brancheau, var drepin af háhyrningi nákvæmlega tveimur mánuðum eftir að Martinez lést. Það mál varð kveikjan að heimildarmyndinni Blackfish þar sem starfsemi Seaworld og stjórnendur garðsins eru harðlega gagnrýndir.
<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/fLOeH-Oq_1Y" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>Hargrove gagnrýnir ekki aðeins aðbúnað þjálfaranna heldur einnig dýranna. Hann segir að mat sé haldið frá þeim í marga daga hagi þau sér illa, tennur þeirra eru boraðar út til að koma í veg fyrir sýkingar og innræktun er algeng. Þá eru kálfar teknir frá mæðrum sínum. Hann segir m.a. að í einu slíku tilviki hafi móðir synt um laug sína og kallað á kálf sinn dögum saman.
„Mér ofbauð græðgi fyrirtækisins og misnotkun þess á hvölum og þjálfurum,“ segir Hargrove en hann hætti hjá Seaworld í ágúst árið 2012. Hann berst nú ötullega fyrir því að hvalirnir fái að fara í sjávarfriðlönd og að föngun þeirra verði bönnuð með lögum.
Hann efast þó um að Seaworld hafi sungið sitt síðasta. Fyrirtækið ætli sér nú að hasla sér völl í Miðausturlöndum og Asíu. „Þetta fólk hefur ítrekað sýnt það að það mun ekki hlusta á breytt viðhorf fólks til sædýrasafnsins,“ segir Hargrove. „Þeir vilja peninga og þeir vilja hagnað.“
Hann segir hins vegar að smám saman hafi verið flett ofan af starfseminni. „Þeirra leikur er búinn. Ef þeir vilja berjast áfram þá munu þeir ekki vinna. Þeir munu bara slást fram á grafarbakkann.“
Sjá einnig: