Kalt fólk ferjað af heiðinni

Bíll frá björgunarsveitinni Húnum á Hellisheiði síðdegis í dag.
Bíll frá björgunarsveitinni Húnum á Hellisheiði síðdegis í dag. Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson

Björgunarsveitir eru að ferja síðasta fólkið niður af Holtavörðuheiðinni og í Staðarskála. Dæmi eru um að fólk hafi verið orðið kalt þar sem drepist hafi á bílum þess. Sumir sátu fastir á heiðinni í um fjórar klukkustundir. Liðsmenn björgunarsveitarinnar Húna hafa staðið í ströngu í dag við að aðstoða fólk á heiðinni.

Sjá: Yfirfull fjöldahjálparmiðstöð

Skilja hefur þurft tólf fólksbíla og einn flutningabíl eftir á heiðinni. Tvö snjóruðningstæki eru á Holtavörðuheiði en annað þeirra fór út af veginum síðdegis og hitt er nú notað til að reyna að koma því upp á veginn aftur. Það er því ekki verið að moka heiðina í augnablikinu enda er veður enn slæmt mjög blint og hvasst. Eitthvað er þó tekið að lægja, samkvæmt upplýsingum Hilmars Frímannssonar, formanns svæðisstjórnar 9 hjá Húnum. Hann segir að nú verði reynt að koma fólkinu í húsaskjól því ljóst sé að margir muni ekki ná áfangastað sínum í kvöld vegna veðursins.

Hilmar segir að hugsanlega verði farið með fólk yfir Laxárdalsheiði í kvöld áleiðis til Reykjavíkur.

Holtavörðuheiðin er lokuð og sömuleiðis Brattabrekka og Steingrímsfjarðarheiði.

Það var vandasamt að aka niður af Holtavörðuheiðinn í dag. …
Það var vandasamt að aka niður af Holtavörðuheiðinn í dag. Ekkert skyggni. Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert