„Kolvitlaust“ veður og margir fastir

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tugir bíla eru fastir á Holtavörðuheiði, sumir bókstaflega en aðrir eru stopp vegna veðurs. Búið er að kalla út björgunarsveitir frá Hvammstanga og Borgarnesi og loka heiðinni.

Að sögn Gunnars Arnar Jakobssonar, formanns björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga, er kolvitlaust veður á heiðinni og ekkert skyggni. Hann segir að stefnt sé að því að aðstoða fólk niður með bílana, ef það er mögulegt.

Gunnar segist ekki vita til þess að bílar hafi lent saman á heiðinni.

Sjá einnig: Fastar í klukkutíma á heiðinni

Mikil ófærð og lítið skyggni er nú á Holtavörðuheiði, samkvæmt upplýsingum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Búið er að kalla út björgunarsveitir beggja vegna heiðarinnar til aðstoðar. Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir eru í vanda en talið að þeir skipti tugum.

Gengur ekki niður fyrr en á miðnætti

Samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar má áfram má búast við hvassri suðvestanátt með éljum og skafrenningi um landið vestanvert, og ekki dregur að ráði úr vindi fyrr en eftir miðnætti. Á Vestfjörðum hvessir og má búast við suðvestan 13-20 m/s með skafrenningi á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum í kvöld.

Einnig hvessir á fjallvegum á Norðurlandi, s.s. Þverfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði með skafrenningi í kvöld og nótt.

Það er lokað á Holtavörðuheiði og á Bröttubrekku en hægt er að fara Laxárdalsheiði vegur númer 59 og Heydal vegur númer 55 en þar eru hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur. Lokað er um Steingrímsfjarðarheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert