Fjöldi fólks hefur safnast saman í Staðarskála og bíður þess að Holtavörðuheiði verði opnuð. Að sögn Þorbjargar Sigurðardóttur vaktstjóra fór að fjölga í skálanum rétt eftir kl. 16, þegar heiðinni var lokað.
Hún segist ekki geta lagt mat á það hversu margir eru í skálanum.
Sjá einnig: Svona er veðrið á Holtavörðuheiði
En er starfsfólk Staðarskála reiðubúið til að afgreiða allan þennan fjölda?
„Já, þetta er náttúrlega ekki í fyrsta skipti sem heiðinni er lokað á sunnudegi, og við erum alveg vön því á sumrin að það sé rosa mikil traffík. Og erum alltaf búin undir allt; þótt það sé ýmislegt sem þurfi að redda aukalega þá reynum við okkar besta,“ segir Þorbjörg.
Hún segir helsta vandann að erfitt geti verið að fjölga fólki á vaktinni.
Þorbjörg segir flesta bíða í skálanum þar til heiðin er opnuð, en starfsfólkið fylgist með stöðu mála á heimasíðu Vegagerðarinnar. Þá láti Vegagerðin gjarnan vita þegar heiðinni er lokað eða hún opnuð, ef hægt er að koma því við.
Uppfært kl. 18.52:
„Það er bara allt fullt af fólki hérna og rosafjör. Fólk er bara að spila og svona,“ segir Guðrún Margrét Þrastardóttir, en hún er ein af þeim sem bíða í Staðarskála. Hún segir eitthvað hafa fækkað í skálanum, en nokkrir ætluðu að leggja á Laxárdalsheiði.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er opið þá leið en þar eru hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur.
Guðrún segir að því hafi verið fleygt fram að Holtavörðuheiðin verði lokuð fram á kvöld, en hún segir fólk í góðu yfirlæti í skálanum. „Já, svo framarlega sem það klárast ekki allt hérna. Ég var einmitt að horfa í samlokukælinn,“ segir hún og hlær.
Guðrún er í 30 manna hópi frá Vogue fyrir heimilið sem var á árshátíð á Akureyri. „Við fórum í óvissuferð og þetta varð að algjörri óvissuferð,“ segir hún. Hún segir a.m.k. einn annan stóran hóp í skálanum, frá Listaháskólanum.
Uppfært kl. 20.02:
Um kl. 19.30 voru 200 manns í Staðarskála, að sögn Gunnars Arnar Jakobssonar, formanns björgunarsveitarinnar Húna.