Samlokurnar seldust upp

Allt fullt í Staðarskála í dag.
Allt fullt í Staðarskála í dag. Ljósmynd/Ragnar Hilmarsson

„Við eigum nóg af kaffi og pylsum ennþá en samlokurnar seldust upp,“ segir Lilja Guðrún Ragnarsdóttir, starfsmaður í Staðarskála, en þar hefur verið fullt út úr dyrum vegna veðursins frá því síðdegis í dag. „Við pössum okkur að eiga alltaf nóg af kaffi,“ bætir Lilja Guðrún við.

Hún segir að dagurinn hafi gengið ágætlega. Vissulega hafi verið mikið álag á starfsfólkinu en að allir sem leituðu í Staðarskála til að bíða af sér veðrið hafi verið kurteisir og skilningsríkir.

Hún segir dæmi um að fólk sem sé að koma í skálann nú í kvöld hafi beðið fast í bílum sínum á Holtavörðuheiði frá því kl. 17 í dag. 

„Við lokum ekkert á fólkið,“ segir Lilja Guðrún spurð hvort að opið verði í nótt í Staðarskála. Hún segir að nú sé farið að fækka í húsinu enda búið að opna tvær fjöldahjálparmiðstöðvar, aðra í Reykjaskóla í Hrútafirði og hina í Ásbyrgi í Laugarbakka í Miðfirði. Fólki er nú beint á að fara að Laugarbakka þar sem Reykjaskóli er orðinn yfirfullur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert