30 bílar enn fastir á heiðinni

Bíll frá björgunarsveitinni Húnum á Hellisheiði síðdegis í dag.
Bíll frá björgunarsveitinni Húnum á Hellisheiði síðdegis í dag. Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson

„Við erum ekki ennþá búnir að komast í gegnum þetta. Við fengum fréttir um sjöleytið, þá voru ennþá þrjátíu bílar fastir í þessari þvögu sem er uppi á heiðinni,“ segir Gunnar Örn Jakobsson, formaður björgunarsveitarinnar Húna, um aðgerðir á Holtavörðuheiði. Sjá veðurvef mbl.is.

Unnið er að því að koma fólki, og bílum, niður af heiðinni báðum megin og segir Gunnar að allar björgunarsveitir frá Akranesi og norður á Skagaströnd hafi verið kallaðar út. Alls er um að ræða 35 björgunarsveitamenn og 14 bíla. Einn þeirra sem situr fastur í bíl sínum á heiðinni segir í samtali við mbl.is að ekki sjáist á milli stika og að bílarnir færist aðeins löturhægt um heiðina.

Fyrsta beiðni um aðstoð barst um kl. 15.30 í dag, en þá hafði bíll lent utan vegar.

Að sögn Gunnars er staðan á heiðinni sú að einhverjir bílar eru fastir í ýtrasta skilningi þess orðs, einhverjir hafa farið út af veginum en aðrir eru stopp vegna annarra bíla.

„Það eru um 200 manns sem bíða í Staðarskála, við vorum að láta telja þar um klukkan hálfátta,“ segir Gunnar, en fjöldi fólks bíður eftir að heiðin opnist.

Hann segir veðrið á heiðinni afleitt, vindhraða 21 m/s og 25 m/s í hviðum, og skyggni ekkert. Gunnar segir að Vegagerðin verði að meta það hvenær heiðin sé aftur fær, en hann segir að eins og veðrið er, sé hætt við að öngþveitið endurtæki sig ef opnað yrði nú. Hann ítrekar að fyrsta verkefni á dagskrá sé að koma þeim sem fastir sitja niður af heiðinni.

Það er lokað á Holtavörðuheiði og á Bröttubrekku en hægt er að fara Laxárdalsheiði, vegur númer 59 og Heydal, vegur númer 55, en þar eru hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur. Lokað er um Steingrímsfjarðarheiði.

Svona er veðrið á Holtavörðuheiði

„Rosafjör“ í Staðarskála

Blint á Holtavörðuheiðinni síðdegis.
Blint á Holtavörðuheiðinni síðdegis. Ljósmynd/Björgvin Páll Hauksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka