Láta reyna á ábyrgð veghaldara

Tjónum vegna holuaksturs á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 248% á milli ára. Frá áramótum hefur verið tilkynnt um 122 tjón vegna holuaksturs, á sama tíma í fyrra voru þau 35. Félag Íslenskra Bifreiðaeigenda ætlar að láta reyna á hvort veghaldarar hafi skapað sér skaðabótaskyldu með ónógu viðhaldi.

Komið hefur fram að margoft hafi verið varað við því að vegakerfið myndi fara illa vegna sparnaðar í viðhaldi á vegum, Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, telur því nauðsynlegt að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort veghaldarar hafi sýnt gáleysi með niðurskurði í viðhaldi vega sem kunni að skapa þeim skaðabótaskyldu.

Frá áramótum hefur verið tilkynnt um 122 tjón vegna holuaksturs til Sjóvá sem tryggir Vegagerðina (91 tjón), Reykjavíkurborg (23 tjón) og Hafnarfjarðarbæ (8 tjón). Þann 19. febrúar voru tilfellin 61, vandinn hefur því aukist eins og spáð hafði verið fyrir um. Einungis einum tjónþola tekist að fá tjón sitt bætt en tjón vegna holuaksturs fást ekki bætt með kaskó-tryggingu og ökumenn fá tjónið ekki bætt nema að búið hafi verið að tilkynna um holuna sem olli því.

Í Kópavogsbæ og Garðabæ þar sem VÍS sér um að tryggja veghaldara hefur verið tilkynnt um átta tjón frá áramótum athygli vekur að tvö þeirra hafa fengist bætt en eftir er að meta hin sex. Mikið hefur verið fjallað um ástandið að undanförnu og tilkynningum um holur hefur fjölgað mikið og því vekur að sama skapi eftirtekt að fjölda bættra tjóna hjá Sjóvá hafi ekkert fjölgað.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka