Ólöf notar ferðaþjónustuna á ný

Ólöf Þorbjörg nýtir sér nú Ferðaþjónustu fatlaðra á ný.
Ólöf Þorbjörg nýtir sér nú Ferðaþjónustu fatlaðra á ný.

Mikil óánægja hefur verið með Ferðaþjónustu fatlaðra eftir að strætó tók yfir reksturinn en þegar Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, 18 ára stúlka með þroskaskerðingu, gleymdist í bíl ferðaþjónustunnar í sjö klukkustundir var mælirinn fullur. Í kjölfarið var mynduð neyðarstjórn Strætó sem hefur nú skilað af sér skýrslu þar sem fram kemur að endurskipuleggja þurfi rekstur ferðaþjónustunnar frá grunni.

Pétur Gunnarsson, faðir Ólafar Þorbjargar, hafði ekki lesið skýrsluna þegar mbl.is náði af honum tali en segir að hann telji að sjónarmið fjölskyldunnar hafi náð eyrum réttra aðila.

„Við fórum mjög vel yfir þær breytingar sem við viljum sjá á fundi með stjórnendum Strætó,“ segir Pétur. Hann segir að á fundinum hafi verið farið yfir þær aðgerðir sem þegar hafði verið gripið til vegna málsins og að í kjölfarið hafi Ólöf aftur byrjað að nýta sér ferðaþjónustuna enda séu fáir aðrir kostir til taks fyrir fólk í hennar aðstöðu.

„Það fór ansi góður hluti dagsins í ferðir fram og til baka þegar við vorum ekki að nýta þjónustuna. Það er eins með okkur og aðra sem nýta þetta, þjónustan er bara nauðsynleg,“ segir Pétur.

Hann segir erfitt að segja til um líðan Ólafar vegna atviksins þar sem fötlun hennar komi í veg fyrir að hún geti tjáð sig. „Hún hefur það fínt, en það er engin leið að átta sig á því hvort þetta hafi einhver eftirköst fyrir hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert