Unnið er að því að ryðja Holtavörðuheiði og sóttu björgunarsveitarmenn ökumenn bifreiða, sem skilja þurfti eftir á heiðinni í nótt, í morgun. Á annað hundrað gistu í félagsheimilinu á Laugarbakka og Reykjaskóla í Hrútafirði í nótt. Það eru mun færri en talið var að myndu gista þar en einhverjir fóru yfir Laxárdalsheiði í gærkvöldi og þurftu því ekki á gistingu að halda.
Elísa Sverrisdóttir hjá Rauða krossinum á Hvammstanga segir að á milli 50 og 60 hafi gist á Laugarbakka en 60-70 í Reykjaskóla í nótt.
Það eru hálkublettir á Reykjanesbraut og á flestum öðrum leiðum á Reykjanesi en hálkublettir á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og éljagangur er á Hellisheiði, í Þrengslum og á Sandskeiði. Það er hálka eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð efst á Landvegi. Ófært er á Krísuvíkurvegi og á Kjósarskarði.
Það er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og víða éljagangur. Þungfært er á Útnesvegi en ófært frá Arnarstapa.
Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka á vegum. Þæfingsfærð er á Ennishálsi og í Bitrufirði á Ströndum. Ófært er um flesta fjallvegi en unnið að mokstri.
Það er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á Norðurlandi. Þæfingsfærð er á Siglufjarðarvegi og hálka og skafrenningur á Hófaskarði.
Á Austurlandi eru hálkublettir. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni frá Djúpavogi og áfram suður.