Sex bíla árekstur varð á Suðurlandsbraut nú fyrir stundu og er lögregla á leið á vettvang. Þá lenti strætisvagn í árekstri við nokkra bíla á Kringlumýrarbraut og auk þess varð árekstur á Reykjanesbraut við Ikea fyrir skömmu. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast alvarlega, en lögregla aðstoðar ökumenn.
„Það er segin saga að þegar veður er svona þá lendir fólk í vandræðum,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Lélegt skyggni er víða og mikil hálka á götum. Er fólki ráðlagt að halda sig inni ef það þarf ekki að vera á ferðinni - og ökumenn hvattir til að fara varlega. Víða hafa myndast umferðarteppur og er umferð víða alveg stopp.
Reykjanesbraut hefur verið lokað vegna ófærðar. Mbl.is hafa borist ábendingar um það að umferð í Kópavogi, Hafnarfirði og Grafarvogi hafi stöðvast vegna færðarinnar og er m.a. allt stíflað í Vallarhverfi í Hafnarfirði. Situr fólk fast við Ásvallarlaug og langt inn í hverfið. Það er því alveg lokað inn og út úr hverfinu, þar sem Reykjanesbrautin er líka lokuð.
„Þetta slotar með kvöldinu en eftir stendur hálkan og þá er ekki um annað að ræða en að fara hægt og varlega. Það kemur að því að fólk þarf að stöðva bílana og þá er eins gott að geta það,“ segir Ómar að lokum.