Verslunarmiðstöð varð að neyðarskýli

Allt að 500 manns komu saman í verslunarmiðstöðinni þegar mest …
Allt að 500 manns komu saman í verslunarmiðstöðinni þegar mest lét. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir

„Við höfum aldrei séð svona. Það hefur verið heilmikið um að vera í vetur en aldrei eins og þetta,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, en fjöldi rútubíla var tepptur í Hveragerði í dag ásamt fólki á eigin vegum.

Gat fólkið leitað athvarfs í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk, og að sögn Aldísar voru þar á milli 400 og 500 manns þegar mest lét. „Það var setið í öllum hornum og legið á gólfinu. Úti um allt á bókasafninu og inn um alla bókarekka lá fólk.“

Fór vel um allan fjöldann

Hún segir ekki hafa væst um fólk, enda hafi það getað nýtt sér þjónustu verslunarmiðstöðvarinnar, þar sem meðal annars er að finna bókasafn, vínbúð, bakarí og veitingastaði. „Þarna er verslunarmiðstöð sem fúnkerar sem fjöldahjálparstöð,“ segir hún.

Aldís segir það hafa verið áberandi hvað allir voru rólegir og slakir, og vel hafi farið um þann gríðarlega fjölda sem kom saman í verslunarmiðstöðinni. „Það voru dregnir fram allir stólar sem til eru í húsinu en fólk sat hvar sem auðan blett var að finna.“

Hugsa vel um fólkið sem er teppt

Gert er ráð fyrir að opið verði í verslunarmiðstöðinni þar til veðrinu slotar og fólk kemst til síns heima. „Það er vel hugsað um fólkið sem er teppt,“ segir Aldís, og bætir við að rúturnar hafi í dag verið á milli tíu og fimmtán, en það sé farið að fækka verulega núna þar sem veður sé að lægja.

„Auðvitað er ömurlegt þegar þetta gerist; fólk þarf að ná flugi og er með önnur plön en að hanga hér í Hveragerði, en það þarf bara að gera gott úr því þar sem við getum ekki stjórnað veðurguðunum,“ segir Aldís að lokum og bætir við að veturinn hafi alveg séð íbúum Hveragerðis fyrir verkefnum. 

10-15 rútum var lagt fyrir utan verslunarmiðstöðina fyrr í dag.
10-15 rútum var lagt fyrir utan verslunarmiðstöðina fyrr í dag. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir
Þéttsetið var í bakaríinu í dag.
Þéttsetið var í bakaríinu í dag. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir
Bókasafnið var einnig þéttsetið.
Bókasafnið var einnig þéttsetið. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir
Verslunarmiðstöðin varð að hálfgerðu neyðarskýli.
Verslunarmiðstöðin varð að hálfgerðu neyðarskýli. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert