Evelyn fær bætur frá Gísla Frey

Gísli Freyr Valdórsson, fv. aðstoðarmaður innanríkisráðherra.
Gísli Freyr Valdórsson, fv. aðstoðarmaður innanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Gísli Freyr Valdórsson mun greiða Evelyn Glory Joseph skaðabætur samkvæmt sátt sem náðst hefur á milli þeirra. Evelyn hafði höfðað skaðabótamál gegn Gísla Frey en hún var nafngreind í minnisblaði sem hann lak í fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og var staðfest þar að sátt hefði náðst á milli málsaðila. Katrín Oddsdóttir, lögmaður Evelyn, segir að Gísli Freyr hafi reynt að leita sátta í málinu en það hafi ekki gengið fyrr en nú. Hún geti ekki tjáð sig um upphæðina sem samið var um en hún telji að báðir aðilar geti verið ágætlega sáttir við niðurstöðuna.

„Maður getur ekki útilokað neitt en það er ekkert fyrirsjáanlegt núna. Hún er bara að reyna að halda áfram með sitt líf, byggja það upp og gera eitthvað úr því. Það er svona næsta verkefnið sem blasir við henni,“ segir Katrín um hvort að málaferlum vegna lekamálsins sé lokið af hálfu Evelyn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka