Gærdagurinn mun líklega seint renna 35 börnum á leikskólanum Víðivöllum í Hafnarfirði úr minni. Þau dvelja reglulega í útideild leikskólans í sumarbúðunum Kaldárseli en þegar sækja átti hópinn í gær voru aðstæður svo slæmar að öruggara þótti að kalla út björgunarsveitir sem fluttu hópinn í bæinn.
Enn ein lægðin olli usla á landinu í gær með tilheyrandi snjókomu, roki og samgöngutruflunum. Afar blint var um tíma og gekk umferð hægt á höfuðborgarsvæðinu. Þá var ástandið einnig slæmt fyrir austan fjall og í uppsveitum Árnessýslu.
„Kaldársel er hluti af okkar starfsemi, við förum þangað á hverjum degi. Við vissum af storminum, það var búið að spá honum. Rútan átti því að koma að sækja okkur klukkan eitt en tafðist í öðru verkefni,“ segir Árdís Grétarsdóttir, leikskólastjóri á Víðivöllum.
Þegar rútan nálgaðist Kaldársel var orðið mjög blint og lenti bílstjórinn í vandræðum vegna færðarinnar. Í kjölfarið var ákveðið að kalla eftir aðstoð björgunarsveita. Árdís segir að börnin hafi verið inni í húsinu allan tímann og ekkert hafi amað að þeim. „Þetta var rosalegt ævintýri, þau voru mjög ánægð,“ segir hún.
Haft var samband við foreldra alla barnanna og þeir látnir vita af stöðu mála. Ljómuðu börnin eins og sólin þegar þau hlupu úr björgunarsveitarbílunum inn í leikskólann að ferðinni lokinni. Björgunarsveitarmennirnir sem tóku þátt í verkefninu höfðu á orði að verkefnið hefði verið það krúttlegasta sem þeir höfðu komið að.
Mörg barnanna hafa þegar tilkynnt starfsfólki leikskólans að þau ætli að taka þátt í björgunarsveit þegar þau verða eldri.
„Þetta var mjög jákvæð upplifun fyrir þau. Ég hef aldrei þurft á björgun á halda eða þekkt einhvern sem hefur verið bjargað af björgunarsveit. Maður hefur oft lesið um þetta mikilvæga og óeigingjarna starf sem fólkið sinnir en svo þegar maður lendir í þessu á eigin skinni þá skilur maður þetta enn betur,“ segir Árdís.
Hún er afar ánægð með framlag björgunarfólksins í gær sem kom jafnvel á eigin bílum til að leggja hópnum lið. „Þetta gekk svo hratt og vel, það voru svo margir bílar í þessu. Þetta var svo faglegt og vel gert hjá þeim, þau voru svo yndisleg við börnin,“ segir Árdís.
Útideild leikskólans í sumarbúðunum Kaldárseli hefur verið starfrækt í þrjú ár en skólinn leigir húsnæðið af KFUM og KFUK á Íslandi. Þrír hópar skiptast á að fara viku í senn og eru börnin að sögn Árdísar afar ánægð með fyrirkomulagið. „Við erum með stórkostlega náttúru, marga hella, skóga og á,“ segir hún.
Börnin eru, líkt og nafn deildarinnar segir til um, meira úti þegar þau eru í Kaldárseli. „Við förum með þau í hellaferðir, bæði á sumrin og á veturna. Þetta er það skemmtilegasta sem þau gera,“ segir Árdís.
Hún er þakklát fræðsluráði Hafnarfjarðar fyrir tækifærið. „Það eru ekki öll fræðsluráð sem eru svona framsýn, þetta gefur börnunum svo mikið. Þetta dregur úr neikvæðri hegðun hjá börnum sem eru með hegðunarvanda. Þarna er meira frjálsræði,stærra svæði og minna áreiti,“ segir Árdís. Ganga í hrauni og mosa og klifur í klettum og trjám hafi einnighaft afar góð áhrif á hreyfiþroska barnanna.
„Það var alveg stórkostlegt í gær hvað allir foreldrarnir voru yfirvegaðir, rólegir og algjörlega frábærir. Það var enginn sem brást illa við, enginn með leiðinlegar athugasemdir. Ég er svo þakklát,“ segir leikskólastjórinn að lokum.