Skall á fyrr og varði lengur

Ófært var um Reykjanesbraut í gær vegna veðurs.
Ófært var um Reykjanesbraut í gær vegna veðurs.

Forsvarsmenn tveggja ferðaþjónustufyrirtækja sem sendu rútur af stað með ferðamenn þrátt fyrir slæma veðurspá í gær segja að veðrið hafi skollið á fyrr og varað lengur en spáð hafði verið. Engu að síður höfðu veðurspár varað við slæmum aðstæðum á vegum.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, gagnrýndi ferðaþjónustufyrirtæki fyrir að hafa haldið af stað út í óveðrið sem spáð hafði verið í gær. Fjöldi ferðamanna sat eftir strandaður við ferðamannastaði á Suðurlandi og á Selfossi og í Hveragerði vegna þess. Þeir komust ekki til borgarinnar fyrr en um miðnætti.

Að sögn Þóris Garðarssonar, talsmanns Gray Line á Íslandi, var ákvörðun um að halda áfram með ferðir um ferðamannastaði á Suðurlandi tekin kl. 7:30 í gærmorgun. Þá hafi veðurspá sem fyrirtækið hefði frá Veðurstofunni gert ráð fyrir hvelli um fjögur leytið síðdegis sem gengi yfir á um þremur tímum. Því hafi verið tekin ákvörðun um að senda bílana af stað.

Gekk ágætlega miðað við aðstæður

Veðurstofan varaði hins vegar við því á mánudagskvöld að ferðir um heiðar og fjallvegi yrðu erfiðar eða ómögulegar vegna óveðursins. Í frétt á vef Vegagerðarinnar um færð og veður sem birtist kl. 6:45 í gærmorgun kom fram að snjóbylur yrði á fjallvegum og að minnsta kosti fyrst  í stað um tíma á láglendi á undan skilunum.

„Vaktmenn okkar mátu það svo að við gætum þurft að bíða af okkur veður í einhvern tíma. Það er ekkert óalgengt í vetrarferðum. Síðan var þetta kannski heldur lengur en ekkert úr hófi fram. Við lítum svo á að þarna var ekki hætta á ferðum og ferðin hafi gengið ágætlega miðað við aðstæður,“ segir Þórir. 

Rútur á vegum fyrirtækisins hafi því beðið af sér veðrið upp við Gullfoss og í Hveragerði. Þar segir Þórir að farþegarnir hafi verið í ágætu yfirlæti. Upphaflega tilkynningin frá Vegagerðinni hafi verið um að Hellisheiði opnaði kl. 20. Svo hafi það dregist þannig að rúturnar komust ekki af stað fyrr en að verða miðnætti.

Aðeins bílarnir sem voru með brottför fyrir hádegi fóru af stað en ferðir sem áttu að fara eftir hádegi voru felldar niður. Morgunferðirnar leggja upp frá kl. 8:30 á morgnana. 

Þórir segir að fyrirtækið sé með ákveðin öryggismörk og rútur séu ekki sendar af stað af einhver hætta sé á ferðum. Erlendu ferðamennirnir sem fóru í ferðirnar í gær hafi verið meðvitaðir um aðstæður og að þeir gætu þurft að bíða af sér veðrið. Þeir séu almennt vel upplýstir og geri sér grein fyrir að á Íslandi sé allra veðra von.

„Það hefur engin óánægja beinst til okkar ennþá um hvernig framkvæmd ferðarinnar var í gær. Farþegum var boðið upp á hressingu. Staðreyndin er sú að ferðamenn sem koma hér í ferðir eru með nokkuð stíft prógramm. Það er yfirleitt ekki hægt að fresta til morguns, þetta er allt planað fyrirfram. Við leggjum okkur bara fram um að uppfylla 

Aldrei eins mikið um afbókanir eins og í vetur

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, hefur svipaða sögu að segja. Ákvörðun hafi verið tekin um morguninn þegar veðurspáin hafi verið á þá leið að óveðrið myndi standa tiltölulega stutt yfir. Það hafi síðan skollið á fyrr og varað lengur á Suðurlandi en búist hafi verið við. Fyrirtækið var með tvær ferðir sem lögðu í hann í gærmorgun en þeim sem áttu að fara af stað eftir hádegi var aflýst. Rúturnar hafi farið öfugan hring með það fyrir augum að komast um Þrengslin á leiðinni til baka. Sú leið verð hins vegar ófær sömuleiðis.

„Okkar rútur voru komnar í var áður en þetta skall á. Viðskiptavinirnir koma til að upplifa landið og vilja fá að fara. Ég tel að það hafi ekki verið nein hætta á ferðum í gær. Það fór vel um alla, það komust allir í hús, þetta eru vel útbúnir bílar, það er fagfólk sem er með. Að sjálfsögðu er sú ákvörðun tekin að bíða eftir að veðrinu sloti og fara þegar við teljum að öryggi sé í lagi,“ segir Kristján.

Mestu óþægindin fyrir farþegana hafi verið að þeir hafi komið seint í bæinn. Einhverjir hafi jafnvel misst af öðrum ferðum eða borðum á veitingastöðum sem þeir höfðu bókað.

Aldrei hefur verið meira um afbókanir á ferðum eins og síðustu mánuði, að sögn Kristjáns. Ástæðan sé veðurfarið í vetur. 

„Þetta er bara það versta sem við höfum séð í mörg ár. Veðrið hefur eiginlega stigmagnast og við höfum mætt því á ýmsa vegu. Meiri öryggisvarnir í bílum, breytingar á búnaði og annað,“ segir hann. 

Fyrri fréttir mbl.is:

Rúturnar áttu að vera komnar í hús

Verslunarmiðstöð varð að neyðarskýli

Vonskuveður eftir hádegi á morgun

Þéttsetið var í bakaríinu í Hveragerði í gær þar sem …
Þéttsetið var í bakaríinu í Hveragerði í gær þar sem ferðamenn biðu eftir því að Hellisheiðin opnaðist. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert