„Suðurstrandarvegur hefur bjargað oft í vetur, bæði okkur og öðrum,“ segir Kjartan Ólafsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Sterna, sem stendur fyrir hópferðum með ferðafólk, meðal annars um Gullna hringinn.
Athygli vakti hvað Suðurstrandarvegur virtist lítið ekinn í fyrradag þótt Hellisheiði og Þrengsli hefðu lokast vegna óveðurs. Fólk safnaðist upp beggja vegna við heiðina, meðal annars rútufarþegar í Hveragerði.
Suðurstrandarvegur var opinn allan daginn. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að þegar vegir lokist eigi þjónusta Vegagerðarinnar að færast yfir á aðra opna vegi, í þessu tilviki Suðurstrandarveg, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.