Umsóknin ekki dregin til baka?

AFP

„Ríkisstjórn Íslands hefur ekki með formlegum hætti dregið til baka [umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið]. Hún hefur frestað viðræðum um tvö ár. Ef ákveðið verður við lok þessa tveggja ára tímabils að draga til baka umsóknina verða þeir að senda ósk um það til ráðherraráðsins sem tæki viðeigandi ákvörðun.“

Þetta sagði Maja Kocijanic, talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafund í dag í Brussel þar sem rætt var um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að óska eftir því við sambandið að Ísland verði ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki að því. Kocijanic var spurð að því hvort Evrópusambandið liti svo á að Ísland hefði dregið umsóknina til baka. Ennfremur var spurt hvort krafist yrði þess að aðlögunarstyrkir sem sambandið veitti landinu yrðu endurgreiddir. Kocijanic sagðist þurfa að skoða það mál betur.

Kocijanic ítrekaði að það væri alfarið ákvörðun Íslands hvernig sambandi þess við Evrópusambandið væri háttað í þessum efnum og að ákvörðun landsins yrði að sjálfsögðu fyllilega virt. Tekið væri mið af bréfi ríkisstjórnarinnar og sérstaklega ósk hennar um að Ísland yrði ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki að sambandinu. Ísland væri eftir sem áður mikilvægt samstarfsland Evrópusambandsins meðal annars í gegnum aðild landsins að EES-samningnum og samstarf í málefnum norðuslóða. Ísland væri ennfremur áfram velkomið í raðir sambandsins.

Spurð hvort það skipti máli að mati Evrópusambandsins að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið borin undir Alþingi sagði Kocijanic að hvernig staðið væri að töku ákvarðana væri alfarið Íslands að ákveða.

 

<iframe allowfullscreen="true" frameborder="0" height="378" id="videoplayerI100361" mozallowfullscreen="true" scrolling="no" src="http://ec.europa.eu/avservices/play.cfm?ref=I100361&amp;videolang=EN&amp;devurl=http://ec.europa.eu/avservices/video/player/config.cfm" webkitallowfullscreen="true" width="670"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert