„Ég heyrði þegar þakið fór af stað og sá á eftir plötunum fjúkandi burt. Síðan sá ég að bíllinn var bara farinn og fann hann svo á hvolfi fyrir neðan brekku með hjólin upp í loft,“ segir Guðrún Ingibjörg Halldórsdóttir, íbúi í Lönguhlíð í Bíldudal.
Mestur var vindurinn um klukkan 10 í morgun. „Nú er veðrið gengið niður og vindáttin búin að snúast. Það var suðaustanátt í morgun sem skall á fjallinu og kom margföld tilbaka eins og byssuskot,“ segir Guðrún. Þrátt fyrir að þakplötur hafi fokið er húsið íbúðarhæft. „Það lekur ekkert, og engin rigning er núna. “
„Það verður sjálfsagt hægt að gera við þakið á morgun. Sonur minn býr hér í nágrenninu og synir mínir. Það er sjálfsagt að gera við það fyrir næstu rigningu,“ segir Guðrún að lokum.