Tæplega 1.000 fermetrar af þakdúk Egilshallar rifnuðu af í stormviðri gærdagsins. Egill Gomez, forstöðumaður Egilshallar segir nokkuð vatnstjón hafa orðið í höllinni þar sem mikið hefur lekið í gær og í dag en að gengið hafi vonum framar að leggja nýjan dúk.
„Það fór blásari af þakinu sem að gerði það að verkum að það kom gat á búkinn. Þá komst vindur undir dúkinn og í framhaldinu fór mikið af þakplötunum fyrir ofan anddyrið að kvikmyndahöllinni en það var þó raunar mest vegna titrings í húsinu,“ segir Egill sem kveðst aldrei hafa upplifað annað eins á þeim tíu árum sem hann hefur starfað í Egilshöll.
Hann segir bygginguna þó hafa staðið veðrið ótrúlega vel af sér. Vinna við að fjarlægja lausar plötur og leggja nýjan dúk hefur staðið frá því í morgun og gerir Egill ráð fyrir að sú vinna haldi áfram í alla nótt enda sé önnur lægð á leiðinni.
„Við erum búnir að gera viðbragðsáætlun fyrir skotið í kvöld. Þetta er samstilltur hópur, það eru allir búnir að ákveða að taka þetta á léttleikanum og vinna þetta saman, það þýðir ekki annað.“
Í gær þurfti að fella niður sýningar í Sambíóunum í Egilshöll vegna skemmdanna. Í dag gekk starfsemin hinsvegar sinn vangang og verða sýningar í kvöld samkvæmt áætlun þrátt fyrir mikið tjón í anddyrinu. Jóhannes Ásbjörnsson, einn af eigendum Keiluhallarinnar sem er nágranni Sambíóanna í Egilshöll, segir keiluaðstöðuna hinsvegar hafa sloppið vel.
„Eins og sást í fréttum þá þakdúkurinn á Egilshöll upp að töluverðum hluta en það var ekkert víst að það myndi leka inn. Svo um miðjan dag í gær fór að fossa meðfram járnsúlum sem halda þakinu uppi. Móttökusvæðið okkar er þarna undir en við erum svo heppin að keilubrautirnar og veitingasvæðið sluppu algjörlega,“ segir Jóhannes og tekur fram að engin röskun hafi í raun orðið á starfsemi Keiluhallarinnar.
„Þetta var hressandi dagur. Við notuðum allt sem hendi var næst til að fanga lekann, bala og tunnur, handklæði og sloppa,“ segir Jóhannes. Hann segir flokk af fólki hafa komið til aðstoðar og þakkar vöskum viðbrögðum að ekki hafi farið verr.
„Tjónið er ekki mikið fyrir okkur við fyrstu sýn, þetta hefði getað verið miklu verra.“