Hafði ekkert með birtingu að gera

Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn.
Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn.

Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn, birti færslu á Facebook síðu sinni í gær þar sem segir að hann hafi hvorki haft nokkuð með birtingu skýrslunnar um skipulag lögreglu við mótmælin 2008 til 2011 að gera né heldur átt frumkvæði að gerð skýrslunnar. „Ástæðan fyrir því að ég gerði þessa skýrslu hefur ekki með neitt annað að gera en það að ég var verið beðinn um það af þáverandi lögreglustjóra,“ segir Geir Jón í samtali við mbl.is.

Þegar skýrslan var birt opinberlega síðasta haust mátti auðveldlega lesa viðkvæmar persónuupplýsingar í gegnum yfirstrikanir yfir nöfn um 100 einstaklinga. Greindi Rúv frá því í janúar að hátt í 20 manns hyggist leita réttar síns.

Hann segir skýrsluna vera samantekt yfir það sem fram kom í dagbók, málaskrá og skýrslum hjá lögregluembættinu. „Hugmyndin var að hafa á einum stað samantekt með öllum þeim upplýsingum sem lágu fyrir í bókunarkerfi og málaskrá lögreglunnar á sínum tíma,“ segir Geir.

Hann segir sér hafa sárnað þegar núverandi lögreglustjóri og aðstoðarlögreglustjóri gáfu út að pólitískar skoðanir hans hafi litað textann. „Af hverju var ég þá ekki beðinn um að skoða textann og endurskoða hann. Við mig var aldrei rætt,“ segir Geir Jón og bætir við að hann hafi skilað skýrslunni af sér 1. júní árið 2012.

Hann segir allar lögregluskýrslur vera persónutengdar einhverjum aðilum. Hvort sem nafngreindir einstaklingar í skýrslum hafi verið kærðir, grunaðir, vitorðsmenn eða annað. 

„Öll þessi nöfn koma úr málaskrá lögreglu. Þá hafa lögreglumenn kært viðkomandi fyrir einhver brot í mótmælunum og í lögregluskýrslum eru auðvitað skráð öll þau nöfn því málin varða einhvern ákveðinn eða ákveðna aðila. Það þarf einhversstaðar að koma fram og því átti þessi skýrsla aldrei að fara svona til almennings,“ segir Geir Jón. 

Facebook-færsla Geirs Jóns í heild sinni:

„Kæru vinir mínir hér á fb. ég þarf að upplýsa ykkur um mál sem hefur brunnið á mér að undanförnu. Þannig er að mér var falið af lögreglustjóra LRH að taka saman í allar þær upplýsingar, skýrslur og annað sem til væri í lögreglukerfi lögreglunnar varðandi mótmælin frá því í um haustið 2008 og þar til þeim lauk um árið 2011. Fram hefur komið í einhverjum fjölmiðli að ég hafi brotið lög með því að birta skýrsluna opinberlega og nöfn fólks hafi verið hægt að lesa ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Persónuvernd sendi frá sér skýrslu fyrir nokkru síðan varðandi þetta samantekt mína um búsáhaldabyltinguna.

Vegna þessa vil ég taka fram að ég kom hvergi nálægt því að birta þessa skýrslu opinberlega enda skilaði ég henni til lögreglustjóra LRH í byrjun júlí 2012 og eftir það hafði ég ekkert með hana að gera. Ritstjóri skýrslunnar voru aðstoðarlögreglustjórar LRH þeir, Jón H.B.Snorrason og Hörður Jóhannesson. Ákveðið var hvernig skýrslan yrði uppbyggð og ég beðinn um að rita hana áður en ég lyki starfi sem yfirlögregluþjónn vorið 2012. 

Þannig var að ég hafði beðið um starfslok þegar ég yrði 60 ára og búinn að ná 95 ára reglunni. Bað þá lögreglustjórinn Stefán Eiríksson mig um að taka saman þessa skýrslu en hans aðstoðarlögreglustjórar yrðu beinir tengiliðir við mig um ritun hennar.
Auðvitað gerði ég það sem ég var beðinn um, hef aldrei tekið annað í mál. Þegar ég skilaði skýrslunni taldi ég víst að við mig yrði rætt t.d. hvort þar kæmi eitthvað fram sem ekki væri rétt að þar stæði en svo varð ekki. Aldrei var haft samband við mig og ég beðinn um að gera einhverjar breytingar.

Síðan gerist það að sl. haust kemst nefnd um upplýsingamál að því að birta skuli skýrsluna almenningi, það hafði Stefán Eiríksson algjörlega neitað að gera á meðan hann var lögreglustjóri enda er skýrslan í öllum atriðum samantekt mjög mikilvægra upplýsinga og mjög svo persónulegra upplýsinga sem lögreglan má ekki láta frá sér fara.
Skýrslan er send ákveðnum aðila og svo öllum fjölmiðlum með þeim hætti að hægt er að lesa nöfn þess fólks sem voru gerendur eða segjendur í mótmælunum og jafnvel þeir sem voru kærðir fyrir lögbrot. Þvílíkt og annað eins. 

Svo gerist það að þegar núverandi lögreglustjóri og aðstoðarlögreglustjóri Jón H.B. Snorrason eru kallaðir fyrir eftirlistnefnd Alþingis segja þeir að texti skýrslunnar litist af stjórnmálalegum skoðunum mínum. Ef þau hefðu lesið skýrsluna hefðu þau séð að textinn er sóttur í dagbók lögreglunnar, málaskrá, lögregluskýrslur og umsagnir lögreglumanna sem komu að þessu stóra verkefni. 

Það sem er óheppilegt við þetta allt saman er að lögreglumenn urðu vitni að öllu því sem fram kemur í skýrslunni en ég í fæstum tilfellum. Enda er skýrslan ekki umgjörð um það sem ég upplifði í mótmælunum heldur allir þeir lögreglumenn sem að komu.
Fyrirgefið kæru vinir að ég skuli birta þetta hér en ég fann mig knúinn til þess að upplýsa fjölda vina minna hér á fb.um þetta mál. Hef reynt að fá að tjá mig um þetta á öðrum vettvangi t.d. fjölmiðlum en þeir hafa engan áhuga. Svo gott að slátra mér sem er hættur opinberum störfum og skiptir ekki lengur neinu máli.

Lítið er yndislegt og njótum þess til hins ýtrasta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert