Allt að 45 metrar í hviðum

Björgunarsveitarfólk hefur haft í nægu að snúast undanfarna mánuði.
Björgunarsveitarfólk hefur haft í nægu að snúast undanfarna mánuði. mbl.is/Golli

Sunnan stormur með veðurhæð 20-27 m/s  gengur nú yfir landið, einkum vestan og norðvestanvert, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.  Reikna má með hviðum 30-45 m/s fram undir hádegi undir Hafnarfjalli og við Skeljabrekku sem og víða á norðanverðu Snæfellsnesi. Einnig er byljótt í þessari átt og hviður fram yfir hádegi við Hnífsdal og Arnardal á milli Ísafjarðar og Súðavíkur sem og í Fljótum og á Siglufjarðarvegi.

Allvíða er varað við vegaskemmdum þar sem slitlag hefur skemmst í hvassviðri. Vegfarendur eru beðnir að fara með gát.

Vegir á Suðurlandi eru greiðfærir en óveður er mjög víða. Á Vesturlandi er ófært á Fróðárheiði. Hálkublettir eða krapi er á fjallvegum en greiðfært á láglendi. Óveður víða.

Á Vestfjörðum er snjóþekja á flestum leiðum og óveður mjög víða. Ófært er um Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði, Klettsháls og Hjallaháls. Þæfingsfærð er á Mikladal en krapi á  Hálfdáni.

Vegir eru greiðfærir á Norðurlandi en þó er hálka eða snjóþekja á heiðum. Óveður er á Vatnsskarði og á Siglufjarðarvegi.

Á Austurlandi er víða greiðfært en eitthvað um hálkubletti á fjallvegum. 

ATH. Vegurinn um Hvalnesskriður / Þvottárskriður er orðinn opinn en þar er mjög  þröngt og en er verið að vinna og biðjum við vegfarendur að fara með gát þar um annars eru vegir greiðfærir með suðausturströndinni.

ATH. Vegurinn niður að Dyrhólaey (vegnúmer 218) er ekki fær bílum og því lokaður. Verður skoðað á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert