Fjöldi farþega bíður nú í nokkrum flugvélum við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli en of hvasst er til að hleypa farþegum inn í flugstöðina. Næst verður kannað eftir klukkutíma hvort hægt verður að hleypa farþegum út.
„Þetta er eins og vera í stöðugri ókyrrð,“ segir Andri Yrkill Valsson, farþegi í einni af vélunum, en vélarnar vagga nokkuð vegna vindsins. Hann hefur beðið í rúman klukkutíma á vellinum.
Hann segir farþega reyna að taka stöðunni með jafnaðargeði en þó séu margir orðnir þreyttir, enda næturflug frá Washington í Bandaríkjunum að baki. Verið er að gefa farþegum kaffi, te og vatn.
Þetta er ekki í fyrsta skipti í þessum mánuði sem farþegar þurfa að bíða í vélum fyrir utan flugstöðina. Mikil röskun varð að innanlands- og millilandaflugi 11. mars sl. og þurfti hópur farþega að bíða í átta klukkustundir.
Frétt mbl.is: Biðu í flugvélunum í átta klukkustundir.
„Ég hef aldrei hatað þetta land svona mikið,“ heyrist í fólki eftir klukkutíma bið úti á flugbraut. And counting.
— Andri Yrkill Valsson (@AndriYrkill) March 16, 2015
Ísland heilsar með vaggi og veltu, of hvasst til að leggja að flugstöð og fólk að verða sjóveikt á biðinni úti á braut. Góðan dag sömuleiðis.
— Andri Yrkill Valsson (@AndriYrkill) March 16, 2015