Tólf svæfingalæknar sem sögðu upp vöktum sínum á Landspítalanum vegna óánægju með vaktafyrirkomulag, hafa dregið uppsagnir sínar til baka. Læknarnir sögðu upp vöktunum eftir að verkfallsaðgerðir lækna hófust í fyrra.
Uppsagnirnar áttu að taka gildi í febrúar en var frestað fram í miðjan mars. Læknarnir vildu gera breytingar á vaktafyrirkomu lagi sínu samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum, en að öðrum kostum hefðu þeir hætt að taka vaktir. Fyrirkomulaginu hefur nú verið breytt og drógu þeir uppsagnirnar því til baka.
Auk læknanna tólf sögðu fjórir svæfingalæknar alveg upp störfum. Þrír þeirra hafa dregið uppsagnirnar til baka. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafa um tíu læknar hætt störfum á spítalanum vegna kjaradeilunnar, en flestir sem sögðu upp störfum í kjölfar hennar hafa dregið uppsagnirnar til baka.