Fokútköll í óveðri

Hluti þaksins á Egilshöll fauk á laugardag.
Hluti þaksins á Egilshöll fauk á laugardag. mbl.is/Golli

Í nótt og í morgun hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið kallaðar út vegna foks á nokkrum stöðum.

Rétt eftir miðnætti barst tilkynning um að þakkantur væri að fjúka af húsi í Funalind. Þakkanturinn var á fimm hæða húsi og var því óskað aðstoðar körfubíls frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Í Grindavík losnaði þak af húsi, í Reykjanesbæ fauk sólhús og á Þingeyri fauk þak af fjósi.  Á níunda tímanum fóru svo þakplötur af stað á Bíldudal og á Sauðárkróki fauk grindverk.

Sunnan stormur með veðurhæð 20-27 m/s  gengur nú yfir landið, einkum vestan- og norðvestanvert.  Reikna má með hviðum 30-45 m/s fram undir hádegi undir Hafnarfjalli og við Skeljabrekku sem og víða á norðanverðu Snæfellsnesi. Einnig er byljótt í þessari átt og hviður fram yfir hádegi við Hnífsdal og Arnardal á milli Ísafjarðar og Súðavíkur sem og í Fljótum og á Siglufjarðarvegi, segir í frétt frá Vegagerðinni.

Vegir á Suðurlandi eru auðir en enn er hvasst á fjallvegum. Það er víða hvasst við Faxaflóa og á Vesturlandi. Krapi er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en Fróðárheiði er ófær.

Það er einnig hvasst á Vestfjörðum og víða snjóþekja eða krapi. Ófært er á Klettshálsi, Kleifaheiði, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði og beðið með mokstur meðan veðrið er svona slæmt.

Vegir eru að mestu auðir á Norðurlandi en þó er sumstaðar hálka eða snjóþekja á fjallvegum. Vindhviður hafa farið yfir 40 m/s á Siglufjarðarvegi.

Á Austurlandi er víðast greiðfært en hálkublettir sumstaðar á fjallvegum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert