Há tré féllu í eldri hverfum

Eigandi Garðlistar ætlar að hafa hóp í viðbragðsstöðu næst þegar …
Eigandi Garðlistar ætlar að hafa hóp í viðbragðsstöðu næst þegar von er á óveðri. Ljósmynd/Garðlist

Aðstoðarbeiðnum rigndi inn hjá garðþjónustunni Garðlist ehf. á laugardaginn þegar ofsaveður gekk yfir landið. Fjölmörg tré féllu og var dagurinn sá annasamasti í sögu fyrirtækisins. Flest útkallanna voru vegna trjáa í eldri hverfum höfuðborgarsvæðisins.

Starfsmenn Garðlistar fengu einnig að finna fyrir óveðrinu en hurð á skemmu fyrirtækisins fauk upp og brotnaði í tætlur. Þá losnaði einnig veggur á húsinu.

Þurftu að forgangsraða vegna álags

Brynjar Kjærnested, eigandi Garðlistar, segir að útköll vegna trjáa sem eru fallin eða eru að falla vera fleiri með hverju árinu. Mun færri útköll bárust fyrir tíu árum en þegar hvessir hressilega í dag rifni verulega há tré jafnvel upp með rótum. „Í hverjum einasta stormi falla nokkur tré,“ segir Brynjar.

Fyrirtækið sinnti útköllum vegna tíu trjáa á laugardaginn og þurfti að forgangsraða vegna anna. Í Álfheimum féll tré og hafnaði á bílum og þurfi því að sinna því strax og í Hlíðunum féll tré og stefndi allt í að það færi inn um rúðu. Brynjar á von á því að fleiri aðstoðarbeiðnir berist í vikunni og taka muni tíma að ganga frá trjánum sem féllu um helgina.

„Trén áttu það sameiginlegt að vera gömul, há og taka á sig mikinn vind,“ segir Brynjar og bætir við að þau hafi aðallega verið í eldri hverfum höfuðborgarsvæðisins.

Hafa hóp í viðbragðsstöðu næst

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að veðrið hefði verið með þeim verri sem hann hefði séð í mörg ár. Símtöl til Neyðarlínunnar fóru úr skorðum sökum álags á kerfinu og náðu sumir ekki sambandi.

Brynjar ætlar að hafa hóp í viðbragðsstöðu næst þegar von er á óveðri. „Við verðum tilbúin með teymi sem sinnir þessu almennilega. Það er greinilega þörf á því,“ segir hann.

Trén sem féllu voru mörg mjög há.
Trén sem féllu voru mörg mjög há. Ljósmynd/Garðlist
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert