Hugi að leiksvæðum í Mosfellsbæ

Frá Mosfellsbæ sl. laugardag.
Frá Mosfellsbæ sl. laugardag.

Mikill snjór í byggð og fjöllum og gríðarleg úrkoma varð þess valdandi að vatn flæddi upp úr ám. Litlir læknir breyttust í stórfljót sem hrifu með sér varnargarða, hleðslur og göngubrýr. Fráveitukerfi Mosfellsbæjar hafði ekki undan og brunnar fylltust af vatni. 

Þetta kemur fram á vef Mosfellsbæjar. 

Töluvert tjón varð í Mosfellsbæ í illviðrinu sem geisaði á laugardagsmorguninn. Líkja má ástandinu víða í bænum við náttúruhamfarir. Starfsmenn Mosfellsbæjar stóðu vaktina og vinna hófst þegar síðdegis á föstudag við að hreinsa frá ræsum og þess háttar.

Huga að leiksvæðum barnanna

Ástandið var verst í Reykjahverfi, meðfram Varmánni og í Baugshlíð. Loka þurfti vegum á tveimur stöðum til að beina vatnsflaumnum í farveg og til að koma í veg fyrir frekara tjón.

Einnig flæddi inn í íbúðarhús og bílakjallara víða. Hreinsistarf stendur yfir og gera má ráð fyrir því að endurbygging stíga og annarra mannvirkja muni standa yfir langt fram á vor. 

Íbúar eru hvattir til að gera allar ráðstafanir sem hægt er í sínu nærumhverfi til að koma í veg fyrir frekara tjón. Einnig er ástæða til að beina því til foreldra að gæta að leiksvæðum barna sinna sérstaklega á þeim stöðum þar sem mikið vatn hefur safnast fyrir. Þeim sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni er bent á að hafa samband við sitt tryggingafélag.

Byggð var stífla við hringtorgið í Klapparhlíð í Mosfellsbæ.
Byggð var stífla við hringtorgið í Klapparhlíð í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Ingi Már Gunnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert