Þiggur ekki boð um að ræða lekamálið

Hanna Birna Kristjándóttir yfirgefur innanríkisráðuneytið.
Hanna Birna Kristjándóttir yfirgefur innanríkisráðuneytið. mbl.is/Kristinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. innanríkisráðherra, ætlar ekki að koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna lekamálsins. Nefndin hafði boðið henni á sinn fund vegna þess en hún segist ekki óska eftir að koma að frekari upplýsingum um það en hún hefur þegar gert.

Í bréfinu sem Hanna Birna sendi nefndinni í dag kemur fram að nefndin hafi gefið henni frest til 17. mars til að svara því hvort hún þiggja boð um að sitja fyrir svörum á fundi hennar. Þar sem hún komi ekki aftur til þingstarfa eftir leyfi fyrr en eftir miðjan apríl segist Hanna Birna vísa til þeirra upplýsinga og gagna sem þegar liggja fyrir í málinu.

Rannsókn og saksókn vegna lekamálsins hafi lokið með dómi yfir Gísla Frey Valdórssyni, fyrrum aðstoðarmanni hennar.

„Líkt og ítrekað hefur komið fram var ég ekki upplýst um þá aðkomu hans fyrr en nokkrum dögum áður. Í það ár sem málið var til umræðu reyndi ég alltaf að svara spurningum um það í samræmi við þá vitneskju sem ég hafði á hverjum tíma. Það á jafnt við um svör mín við fyrirspurnum þingmanna í þingsal og til nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar ég mætti á fund nefndarinnar,“ skrifar Hanna Birna.

Óskar nefndinni velfarnaðar í sínum störfum

Hvað varði athugun umboðsmanns Alþingis á vinnubrögðum ráðherrans í tengslum við málið segir í bréfi Hönnu Birnu að umboðsmaður hafi tilkynnt að henni hafi lokið formlega með áliti hans frá 22. janúar.

„Þar sem ég gegni ekki lengur embætti innanríkisráðherra, hef áður svarað umboðsmanni Alþingis í fjórum formlegum bréfum og er sem stendur í leyfi frá þingstörfum, þá vísa ég til ofangreinds og óska nefndinni velfarnaðar í sínum störfum en óska jafnframt ekki eftir að koma frekari upplýsingum að vegna málsins,“ segir Hanna Birna í bréfinu.

Fyrri frétt mbl.is: Ögmundur sendir Hönnu Birnu ítrekun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka