Slys í Hellisheiðarvirkjun

Starfsmaður Orkuveitunnar var fluttur á bráðamóttöku á níunda tímanum í morgun eftir að hafa fengið fljúgandi þakplötu í höfuðið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var maðurinn ásamt fleirum að hreinsa upp og fergja eftir fok á laugardag þegar þakplata tókst á loft og lenti í höfði hans. Maðurinn rotaðist en er ekki talinn mjög alvarlega slasaður.

Tíu tilkynningar bárust til lögreglu á Suðurlandi um aðstoð vegna veðurtjóns í Árnes- og Rangárvallasýslum um helgina. Ekki var um verulegt tjón að ræða.

Ökumaður og farþegi slösuðust í bílveltu á Suðurlandsvegi austan Þjórsár uppúr klukkan 18 í gær. Bifreiðinni var ekið í austur þegar snörp vindhviða skall á henni. Við það missti ökumaður stjórn á bifreiðinni sem valt. Þarna voru á ferð tveir erlendir karlmenn. Annar þeirra slasaðist á höfði og grunur um að hinn hafi viðbeinsbrotnað. Mennirnir voru fluttir með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala þar sem gert var að sárum þeirra.

Um kvöldmatarleyti í gær lentu nokkrir ökumenn í vandræðum á Hellisheiði vegna veðurs og snjókrapa á veginum. Ekki kom til lokunar vegna þess því fljótt leystist úr þeim vanda.

Tilkynnt var um þrjár minni háttar líkamsárásir um helgina.

Síðdegis í gær brenndist maður á hendi og síðu þegar hann var að vinna með gastæki. Talið er að slanga hafi gefið sig með þeim afleiðingum að eldur komst í manninn. Brunasvæðið var kælt niður. Ekki mun hafa verið um alvarlegt tilvik að ræða.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sex fyrir hraðakstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert