Boða verkföll í næsta mánuði

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, og Drífa Snædal, framkvæmdastjóri þess, …
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, og Drífa Snædal, framkvæmdastjóri þess, á blaðamannafundi þar sem verkfallsboðunin var kynnt í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Starfsgreinasamband Íslands hefur boðað til verkfalla sem gætu hafist 10. apríl nema að viðsemjendur þess mæti kröfu um 300.000 króna lágmarkslaun. Verkfallsboðunin nær til 10.500 manns í matvælaiðnaði, þjónustugreinum, byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, iðnaði og flutningsgreinum.

Viðræðum sambandsins við Samtök atvinnulífsins var slitið fyrir sléttri viku en mikið bar þá á milli samningsaðila og ekkert þokaðist í samningsátt. Samtök atvinnulífsins hafið haldið við þá stefnu að laun almenns verkafólks hækki ekki um meira en 3-4%. Í krónum talið þýðir það hækkun grunnlauna um 6.000-9.500 kr, að því er kemur fram í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu.

„Slíkt er algerlega óviðunandi og var samninganefnd Starfsgreinasambandsins því knúin til að slíta viðræðunum og hefja undirbúning aðgerða,“ segir þar ennfremur.

Markmið sambandsins er að lægstu taxtar verði komnir upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Atkvæðagreiðslan um verkfall verður rafræn og stendur frá kl. 8:00 þann 23. mars til miðnættis þann 30. mars. Gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir 31. mars, rúmri viku áður en aðgerðirnar eiga að hefjast.

Aðgerðirnar núna snúa eingöngu að Samtökum atvinnulífsins og atkvæði um verkfallsboðun verða greidd af félagsmönnum sem taka laun samkvæmt kjarasamningum á milli SGS og SA. 42% þeirra sem greiða atkvæði um verkfall starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, afurðastöðvum, kjötvinnslum og í sláturhúsum) en 32% atkvæðisbærra félaga eru í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.), aðrir hópar telja byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnað og farartækja- og flutningsgreinar.

Alls eru um 50.000 manns innan Starfsgreinasambandsins og er sambandið stærsta landssambandið innan ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka