Tillaga um bólusetningar barna felld

mbl.is/Ómar

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að börn sem fengju inngöngu í leikskóla Reykjavíkurborgar yrðu að vera bólusett nema læknisfræðilegar ástæður hömluðu því, var felld á fundi borgarstjórnar í dag með 9 atkvæðum meirihlutans gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Samþykkt var hins vegar að farið yrði í áhættumat vegna smitsjúkdóma.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem harmað er að því hafi verið hafnað að skóla- og frístundasviði yrði falið „að skoða hvernig best er hægt að útfæra aðgerðir til að tryggja að inngöngu í leikskóla Reykjavíkur fái eingöngu þau börn sem bólusett hafa verið við smitsjúkdómum, nema læknisfræðilegar ástæður hamli. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma jafnframt að meirihlutinn hafi ekki komið til móts við sjónarmið tillögunnar að neinu leyti með því að leggja ekki til að sviðinu verði falið að skoða hvaða aðgerðir væru tækar í því augnamiði.“

Þess í stað hafi meirihlutinn í borgarstjórn lagt fram tillögu þess efnis að farið verði í áhættumat vegna smitsjúkdóma. „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja þá tillögu sem verður þá vonandi jákvætt skref og innlegg í áframhaldandi umræðu innan borgarkerfisins. Áréttað skal þó að tillaga Sjálfstæðismanna snerist ekki um að mæta aðgerðum vegna hættuástands, heldur er henni fyrst og fremst ætlað að hafa forvarnargildi ásamt því að vera hvetjandi og fordæmisgefandi aðgerð til að minnka áhættu á alvarlegum smitsjúkdómum til framtíðar.“

Fréttir mbl.is:

Tillagan róttæk og vanhugsuð

Vilja að bólusetning verði skilyrði fyrir leikskólavist

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert