Fífluðust hálfnaktir við Jökulsárlón

Skjáskot úr myndbandinu

„Ég sé mjög reglulega alls konar fíflaskap en ég hef aldrei fyrr orðið vitni af því að menn séu hangandi á nærbuxunum úti á ísnum,“ segir Þórarinn Jónsson, leiðsögumaður, sem varð vitni að því í morgun þegar tveir Bandaríkjamenn háttuðu sig og fóru út á ísinn í Jökulsárlóni.

Þórarinn tók myndband af athæfinu og birti á Facebook-síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar, þar sem flestir virðast sammála um fávisku ferðamannanna.

„Ég fylgdist með þeim í smá stund og benti þeim svo á að það væri mjög djúpt fjögurra gráðu heitt vatn þarna og það væri enginn að fara að bjarga þeim ef þeir færu þarna ofan í,“ segir Þórarinn. 

Hann segist ekki vita hvað mönnunum hafi gengið til, en athæfið hafi virst vera fíflagangur. „Ég spurði þá þarna undir lokinn hvort þeir könnuðust við Darwin; þetta væri bara náttúruval. Svo sagði ég þeim að koma sér á land sem fyrst.“

Í umræðu um myndbandið á Facebook-síðunni segir leiðsögumaðurinn Ingólfur Bruun að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að heimskingjar drepi sig.  „Eins og hefur komið oft fram hér á þessu svæði þá er einfaldlega ekki hægt að hafa vit fyrir öllum. Það er bara þannig. Heimskingjar verða alltaf til.“

Leiðsögumaðurinn Börkur Hrólfsson hefur þó aðra skoðun. „Þau virðast skemmta sér vel. Ég sé ekkert að þessu. Sjálfsagt vita þau vel að vatnið er bæði kalt og djúpt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert