Lögregla í San Bernardino í Kaliforníu leitar nú að 41 árs gömlum Íslendingi, Alfreð Erni Clausen, vegna umfangsmikils fjársvikamáls. Hann, ásamt tveimur öðrum, er talinn hafa svikið meira en 44 milljónir dollara, rúma sex milljarða króna, út úr hópi fólks með loforðum um að breyta lánum þess.
Alfreð Örn er sagður hafa staðið fyrir svikamyllu ásamt tveimur öðrum mönnum í kringum lögfræðistofu. Héldu þeir því fram að þeir gætu breytt skilmálum lána fólks. Lánin fóru hins vegar til ólöglærðra manna sem breyttu reikningum fólksins, tók við mánaðargreiðslum og fyrirframgreiðslum frá því.
Hinir tveir mennirnir voru handteknir 5. mars en lögfræðistofa þeirra auglýsti þjónustu sína meðal annars á staðarsjónvarpsstöðvum, í útvarpi og í spænskumælandi fjölmiðlum. Mennirnir þrír eru meðal annars ákærðir fyrir stórfelldan þjófnað og peningaþvætti.
Í frétt CBS-sjónvarpsstöðvarinnar í Los Angeles segir að verði mennirnir sakfelldir eigi þeir yfir höfði sér allt að þrjátíu ára fangelsi. Alfreðs Arnar sé enn leitað en vitað sé að hann fari reglulega til Íslands.
Hver sá sem hefur upplýsingar um Alfreð Örn er beðinn um að hafa samband við saksóknara í San Bernandino-sýslu.
Frétt CBS-Los Angeles um málið