Tugir staurastæða brotnuðu

Brotin staurastæða í Hrútatungulínu 1.
Brotin staurastæða í Hrútatungulínu 1. Ljósmynd/Landsnet

Tjón á mannvirkjum Landsnets urðu minni en útlit var fyrir í óveðrinu sem gekk yfir landið á laugardag þrátt fyrir umfangsmiklar truflanir og útleysingar í raforkukerfi fyrirtækisins. Fram kemur í fréttatilkynningu að á annan tug staurastæðna hafi brotnað í flutningskerfi Landsnets. Þar af ellefu í Ísafjarðarlínu efst í Tungudal.

„Stjórnstöð Landsnets hafði í mörg horn að líta þegar óveðrið skall á snemma á laugardagsmorgninum en gríðarlega mikið var um truflanir og útleysingar á sama tíma víðsvegar um landið vegna samsláttar. Staðan versnaði enn frekar þegar byggðalínan, sem er tiltölulega veik og yfirlestuð í hefðbundnum rekstri, gaf sig nokkru fyrir hádegi þegar staurastæða brotnaði í Hrútatungulínu rétt ofan við Vatnshamra í Borgarfirði. Þegar byggðalínhringurinn gefur sig stóreykst hættan á truflunum í flutningskerfinu. Straumlaust varð á Snæfellsnesi og víða á Vestfjörðum og litlu munaði að rafmagnslaust yrði á höfuðborgarsvæðinu. Gripið var til skerðingar á raforku til fyrirtækja víða um land meðan byggðalínuhringurinn var úti en viðgerð lauk rétt um miðnætti á laugardag,“ segir ennfremur.

Fyrir utan eina staurastæðu í Hrútatungulínu 1 hafi ellefu stæður í Ísfjarðarlínu 1 efst í Tungudal, einnig brotnað í óveðrinu um helgina. Vinnuflokkur frá Landsneti sé kominn til Ísafjarðar til að gera við línuna ásamt starfsmönnum Orkubús Vestfjarða. Bilun hafi einnig orðið á Geiradalslínu um helgina en viðgerð á henni sé lokið. Viðgerð á Andakílslínu, sem einnig hafi gefið sig í óveðrinu, bíði hins vegar betri tíma.

„Veðrið um helgina vekur enn á ný spurningar um ástand byggðalínunnar. Samkvæmt áliti veðurfræðinga var óveðrið um helgina ekkert einsdæmi og vert að hefjast handa við að styrkja þessa mikilvægu flutningslínu raforku sem þjónað hefur landsmönnum í þrjá áratugi en er fyrir löngu fulllestuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert