Bandarísk lögregluyfirvöld hafa ekki sett sig í samband við yfirvöld hér á landi vegna máls Alfreðs Arnars Clausen sem eftirlýstur er af lögreglunni í Kaliforníu fyrir meint stórfelld fjársvik.
Þetta staðfestir Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra í samtali við mbl.is. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hefur ráðuneytinu ekki borist beiðni um framsal mannsins til Bandaríkjanna. Ekki hefur náðst í Alfreð Örn í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Eins og komið hefur fram er Alfreð Örn talinn hafa svikið meira en 44 milljónir dollara, eða rúma sex milljarða króna, út úr hópi fólks með loforðum um að breyta lánum þess.
Var Alfreð Örn í slagtogi með tveimur öðrum og eru þeir nú í varðhaldi lögreglunnar í San Bernardino í Kaliforníu. Voru þeir handteknir 5. mars. Í frétt CBS-sjónvarpsstöðvarinnar í Los Angeles segir að verði mennirnir sakfelldir eigi þeir yfir höfði sér allt að þrjátíu ára fangelsi.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær sagði Alfreð Örn að málið væri „flókið“ og „skrýtið“ en að hann og félagar hans hafi ekki gert neitt rangt.
Alfreð sagði ennfremur aðspurður að hann hefði verið hér á landi síðan á síðasta ári. Hann sagðist vita af því að hann væri eftirlýstur í Bandaríkjunum. Spurður hvort hann ætlaði að gefa sig fram við lögreglu hér á landi sagðist hann ekki eftirlýstur hér á landi. En ef lögreglan vildi fá einhverjar upplýsingar frá honum gæti hún verið í sambandi við hann.
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Alfreð Örn og viðskiptafélagi hans Joshua Michael Cobb eigi saman fyrirtækið Clausen & Cobb Management Company (CMCC) ásamt lögmanninum Stephen Lyster Siringoringo. Sá er eigandi lögfræðistofunnar Siringoringo Law Firm sem hefur boðið upp á þjónustu til þess að endurfjármagna lán frá árinu 2010. Í grein Fréttablaðsins kemur fram að þeir félagar hafi beint spjótum sínum að fólki í fjárhagsvandræðum og látið fólk halda að hægt væri að breyta skilmálum eða endurfjármagnað lán þeirra gegn fyrirframgreiðslu.
Kemur jafnframt fram að Siringoringo hafi ekki átt í samskiptum við viðskiptavini eða lánadrottna þeirra, heldur ófaglærðir starfsmenn hjá fyrirtæki Alfreðs Arnars, CMCC. Aðeins er lögfræðingum heimilt að veita þess háttar þjónustu.
Ef leitað er að Siringoringo Law Firm í leitarvél Google kemur fram að Siringoringo hafi verið sviptur málflutningsleyfi í október á síðasta ári. Má þar einnig sjá umsagnir um lögfræðistofunnar á vefsíðunni Yelp þar sem kemur fram að stofan stundi svik og ólögleg viðskipti. Nefndu sumir fyrrum viðskiptavinir að þeir hafi látið ginnast eftir að hafa séð sjónvarpsauglýsingu frá stofunni.
Í málsgögnum kemur fram að viðskipatvinir Alfreðs, Cobb og Siringoringo, hafi greitt á milli 1.995 til 3.500 Bandaríkjadali í upphafi eða um 280.000 til 490.000 íslenskar krónur. Síðan greiddu viðskiptavinir 495 Bandaríkjadali mánaðarlega eða um 70 þúsund íslenskar krónur.
Voru öll þess gjöld greidd áður en nokkur skriflegur samningur var gerður á milli þeirra sem tóku lánið og lánadrottna, eða að skilmálum lána væri breytt. Kemur jafnframt fram að eftir að fólk greiddi upphafsgreiðslu hafi margir viðskiptavina þeirra félaga hafi reynt að fá upplýsingar hjá þeim í gegnum síma og tölvupóst án árangurs.
Sagt var frá því á mbl.is fyrr í dag að Alfreð Örn, sem búsettur hefur verið á Íslandi síðan í fyrra, hafi starfað hjá fasteignasölunni Remax Alpha í Reykjavík í síðasta mánuði. Komst íbúð sem hann sá um sölu á við Ferjubakka í Reykjavík í fréttir vegna sérstaks barokks stíls hennar.
Engar upplýsingar er þó hægt að finna á heimasíðu Remax Alpha um Alfreð Örn eða hvort að hann hafi áður starfað þar. Ekki náðist í framkvæmdarstjóra fasteignasölunnar, Sylvíu Walthersdóttur, við gerð þessarar fréttar.