Það eru miklar líkur á að flestir landsmenn geti séð sólmyrkvann á himni í fyrramálið, samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands. Því þrátt fyrir skýjahulu þá verður hún þunn víðast hvar fyrir utan Austurland og Norðausturland. Þar er hætta á að það verði alskýjað.
Líkt og væntanlega hefur farið fram hjá fáum þá er von á sólmyrkva í fyrramálið. Um er að ræða mesta sólmyrkva sem sést hefur frá Íslandi í 61 ár.
Setjið upp gleraugun
Sólmyrkvinn stendur yfir um tvær klukkustundir. Í Reykjavík hefst hann kl. 8:38, nær hámarki kl. 9:37 og lýkur kl. 10:39 föstudagsmorguninn 20. mars. Á öðrum stöðum á landinu getur munað einni til tveimur mínútum til og frá vegna snúnings Jarðar, snúnings tunglsins og staðsetningu frá almyrkvaslóðinni.
Í tilefni myrkvans færðu Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness , Stjörnufræðivefurinn og Hótel Rangá öllum grunnskólanemendum og kennurum þeirra sérstök sólmyrkvagleraugu svo allir geti fylgst með þessu sjaldgæfa sjónarspili á öruggan hátt. Allt bendir því til að skólabörn á Suður-, Vestur, Norðvestur, Suðaustur- og Suðvesturlandi geti fylgst með sólmyrkvanum ásamt kennurum sínum í fyrramálið.
Því miður eru sólmyrkvagleraugun uppseld á Íslandi sem og víðar í Evrópu og er fólk varað við því að horfa til sólar án slíkra gleraugna í fyrramálið.
Í Morgunblaðinu í dag segir Árni B. Stefánsson, augnlæknir að það að horfa beint á sólina óvörðum augum virkar líkt og að vera með stækkunargler og mynda með því brennipunkt. Sólin beinlínis brenni sjónhimnuna, þar sem skarpa sjónin er. Bruni á sjónhimnunni valdi varanlegri skemmd. Árni segir að keilurnar í lespunkti augans, sem eru taugafrumur, endurnýist ekki skemmist þær. Það er jafnvel hættulegt að horfa beint á sólina þótt ekki sjáist vel til hennar því mikið af geislum sleppur í gegnum skýin.
„Það tekur smátíma, fáeinar sekúndur, að valda varanlegum skemmdum á auganu. Ef maður einblínir á sólina, þó ekki sé nema í fáeinar sekúndur, þá getur hún farið að brenna og þú færð brunablett á sjónhimnuna. Það getur jafnvel gerst á örfáum sekúndum,“ sagði Árni.
Hann segir að fólk ætti alls ekki að horfa á sólmyrkvann á morgun nema í gegnum þar til gerð sólmyrkvagleraugu. Einnig er hægt að nota rafsuðu- eða logsuðugleraugu (styrkleiki 14) en alls ekki sólgleraugu.
Sólmyrkvinn 20. mars 2015 er almyrkvi. Ferill almyrkvans liggur aðeins um 70 km austur af suðausturhluta Íslands. Í Færeyjum og á Svalbarða sést almyrkvi en á Íslandi sést verulegur deildarmyrkvi. Í Reykjavík hylur tunglið 97,5% sólar en 99,4% á Austurlandi. Þetta er seinasti almyrkvi á sólu sem sést frá Evrópu til 12. ágúst 2026, en ferill þess sólmyrkva liggur í gegnum Reykjavík.
Almyrkvinn stendur lengst yfir í 2 mínútur og 47 sekúndur. Almyrkvaslóðin er um 480 km á breidd og liggur að mestu yfir hafi.
Þetta er mesti myrkvi sem sést hefur frá Íslandi frá almyrkvanum 30. júní 1954. Síðan 1954 hefur tunglið mest náð að hylja 77% af sólinni (árin 1986, 1979 og 1971). Við hringmyrkvann 2003 huldi tunglið mest 94% sólar, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.