Frétti af mótframboðinu klukkan sex

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef lagt áherslu á það í minni formannstíð að Samfylkingin haldi þeirri breidd sem í skoðunum sem hún var stofnuð utan um og að hún sé áfram heimkynni fólks með ólík viðhorf. Ég held að það sé lykillinn að því að Samfylkingin haldi stöðu sinni sem burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum. Síðan er það landsfundarfulltrúa að meta hvernig þeir vilja ráðstafa atkvæði sínu.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns flokksins, að bjóða sig fram til formanns gegn Árna á landsfundi Samfylkingarinnar sem hefst á morgun. Árni segist aðspurður hafa frétt af mótframboðinu klukkan 18:00 en þá hafi Sigríður hringt í hann.

Sigríður Ingibjörg sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að lagt hafi verið að henni síðustu daga að bjóða sig fram og ákvörðun hafi verið tekin í dag. Hún nefndi meðal annars að fylgi Samfylkingarinnar hafi verið slakt frá síðustu kosningum sem ástæðu fyrir því hvers vegna hún ákvað að bjóða sig fram. Flokkurinn ætti meira inni að hennar mati.

„Við höfum verið að sækja í okkur veðrið. Við fengum ágætis niðurstöðu í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Við höfum gegnumsneitt verið að mælast með 50% meira fylgi en við fengum í síðustu þingkosningum og ég held að menn megi nú ekki fara á taugum þó það komi ein könnun sem sýnir Pírata sem stærsta flokk landsins. Sú könnun sýnir ákveðna gerjun í stjórnmálunum sem snertir alla flokka og lykilatriðið fyrir Samfylkinguna er að halda sinni sýn á leiðina áfram og missa ekki sjónar af því að þetta er langtímaverkefni. Traust sem glatast verður ekki endurheimt í einu vetvangi. Það tekur tíma og við erum á góðri leið,“ segir Árni Páll.

Árni Páll hefur verið formaður Samfylkingarinnar frá því á landsfundi flokksins fyrir þingkosningarnar 2013 þar sem hann sigraði Guðbjart Hannesson alþingismann í formannskjöri. Árni Páll hlaut þar 61,8% gildra atkvæða en Guðbjartur 37,6%. Árni Páll hefur setið á þingi frá árinu 2007 en Sigríður Ingibjörg frá 2009. Formannskjörið fer fram á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert