Nöfn fólks komi ríkinu ekki við

mbl.is/Sverrir

Ungir sjálfstæðismenn vilja afnema lög um mannanöfn og gefa þannig foreldrum fullt frelsi til að velja nöfn barna sinna án afskipta ríkisins. Með því yrði mannanafnanefnd óþörf og hún lögð niður, að því er segir í ályktun frá félaginu.

„Það ætti ekki að þurfa aðra mannanafnanefnd en foreldra barns. Foreldrum er treyst fyrir langflestum þáttum í uppeldi barna og það er orðið tímabært að treysta þeim einnig fyrir því að nefna barn sitt. Mannanafnalögin koma ekki aðeins í veg fyrir að foreldrar fái að ráða nafngiftum barna sinna, heldur hindra það að fullveðja einstaklingar fái að heita það sem þeir kjósa. Það er verulega íþyngjandi takmörkun á einstaklingsfrelsinu,“ segir í ályktun félagsins.

„Nafngiftir einstaklinga eru persónuleg máls hvers og eins og koma ríkisvaldinu ekki við. Fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2013 í máli ungu stúlkunnar Blævar Bjarkardóttur gegn íslenska ríkinu að réttur manns til nafns félli undir 71. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sérhvers manns til friðhelgi einkalífs, endu væru þar um mikilvæg persónuleg réttindi að ræða. Var þar sérstaklega tekið fram að hagsmunir einstaklinga af því að fá að bera nafn sitt væru ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að fólk fái ekki að heita nafni sínu.

Það hlýtur jafnframt að teljast óeðlilegt í nútímasamfélagi að fólk þurfi að leita til dómstóla til þess eins að fá að heita það sem það vill heita.

Það er fagnaðarefni að innanríkisráðherra hafi ákveðið að kalla eftir sjónarmiðum almennings um endurskoðun mannanafnalaganna. Ungir sjálfstæðismenn benda einnig á að fyrir Alþingi liggur frumvarp þess efnis að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana verði felld brott. Samþykkt frumvarpsins væri stórt skref í rétta átt,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert