Ekkert barn fæddist hér á landi á meðan sólmyrkvinn stóð yfir, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Svo virðist sem örlögin hafi gert hlé á fæðingum á meðan myrkrið færðist yfir landið þessar tvær klukkustundir.
„Það kom eitt í heiminn upp úr klukkan átta og svo annað núna klukkan eitt, en ekkert þar á milli,“ segir læknir á vakt á fæðingadeild Landspítalans í samtali við mbl.is. Það sama var uppi á teningnum í höfuðstað Norðurlands en þar horfði fólk til himins.
„Hér var allt með kyrrum kjörum og starfsfólkið stóð bara úti á svölum og naut sólmyrkvans. Við fengum hér æðislegt útsýni,“ segir læknir á vakt á fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri.