Háloftabelg var sleppt frá Veðurstofunni við Bústaðaveg fyrir rúmri klukkustund og mælir hann meðal annars þær afleiðingar sem sólmyrkvinn hefur á birtu í andrúmsloftinu. „Þetta er hluti af rannsóknarverkefni sem við vinnum að ásamt mörgum öðrum víða í Evrópu. Við sleppum þá þessum hefðbundnu belgjum þar sem við mælum hita, loftþrýsting, vind og raka,“ segir Halldór Björnsson hópstjóri veðurs og loftlagsbreytinga á Veðurstofunni.
Belgurinn sem sleppt var í dag er þó öðrum eiginleikum gæddur, að sögn Halldórs. „Vegna sólmyrkvans var bætt við svokölluðum agnateljara eða geislunarmæli, sem er mælikvarði á agnaþéttleika, ásamt öðrum mælitækjum sem mæla ljósgeislun,“ segir Halldór.
Aðspurður um afdrif belgsins, sem sleppt var klukkan niu í morgun, segir Halldór hann hafa rekið fyrst vestur frá Reykjavík. „Þegar hann kom upp í skýin var greinilega sunnanátt þannig hann tók á sprett til norðurs.“