Sólmyrkvinn töfrum líkastur

„Þetta var magnað og alveg hreint stórkostlegt,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, um sólmyrkvann sem náði hámarki klukkan 9:37 í morgun. Þúsundir manna komu saman fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands, en þar var haldin sólmyrkvahátíð í tilefni dagsins.

Gríðarleg stemning myndaðist á svæðinu og var áhugi fólks á þessum merka atburði augljóslega mikill. Hópurinn taldi niður í sameiningu, og þegar hámarkinu var náð brutust út mikil fagnaðarlæti.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hafði komið fyrir fjölda stjörnusjónauka og gat fólk því fylgst með gangi sólar og tungls á besta mögulega máta. Þá var fólk með sólmyrkvagleraugu hvert sem litið var og voru ófáar myndavélar á lofti.

Feðgarnir Bjarni Ingvar Jóhannsson og Jóhann Bjarnason voru sammála um …
Feðgarnir Bjarni Ingvar Jóhannsson og Jóhann Bjarnason voru sammála um að gaman væri að fylgjast með sólmyrkvanum, sem stæði heldur betur undir væntingum. mbl.is/Ingileif

Sól­myrkvi (e. sol­ar eclip­se) verður þegar tunglið geng­ur milli sól­ar og jarðar og myrkv­ar sól­ina að hluta til eða í heild frá jörðu séð. Það ger­ist aðeins þegar sól­in, tunglið og jörðin eru í beinni línu. Í Reykjavík huldi tunglið 97,5% sólar.

Skilyrði til að fylgjast með sólmyrkvanum voru einstaklega góð hér á landi, en nokkur ský á himni gerðu áhorfið enn dramatískara og tignarlegra. Sævar Helgi segir skilyrðin hafa verið mun betri hér á landi en í Færeyjum og á Bretlandseyjum, þar sem var þungskýjað og lítið skyggni til að fylgjast með sólmyrkvanum.

Ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd af sólmyrkvanum þegar hann náði …
Ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd af sólmyrkvanum þegar hann náði hámarki í dag. mbl.is/Eggert

„Þetta var æðislegt í alla staði og það jafnast ekkert á við það að sjá þetta með eigin augum,“ segir Sævar Helgi. „Það var magnað að sjá hvernig rökkvaði og það myndaðist þessi furðulega birta. Ég hef upplifað þetta nokkrum sinnum áður en finnst þetta alltaf jafn magnað.“

Sævar Helgi segir það frábært að sjá hversu mikinn áhuga fólk hafi haft á sólmyrkvanum. Stjörnufélag Seltjarnarness gaf grunnskólanemum landsins hátt í 54 þúsund sólmyrkvagleraugu, og auk þess seldust tæplega 20 þúsund til viðbótar. „Það er ótrúlega gaman að vita til þess að krakkar um allt land hafi fylgst með sólmyrkvanum, og vonandi kyndir það enn frekar undir áhuga á vísindum,“ segir Sævar Helgi.

Edward og Hailey Gomez sögðu sólmyrkvann töfrum líkastan.
Edward og Hailey Gomez sögðu sólmyrkvann töfrum líkastan. mbl.is/Ingileif

Hjónin Edward og Hailey Gomez eru stjörnufræðingar frá Cardiff í Wales, en þau gerðu sér sérstaka ferð til Íslands til að fylgjast með sólmyrkvanum.

„Fyrir ári síðan áttaði ég mig á því að það yrði sólmyrkvi í ár og ég hafði hugsað mér að vera bara heima og fylgjast með honum. Við heyrðum svo af því að þessi frábæri viðburður yrði hér og þar sem okkur hefur alltaf langað að koma til Íslands ákvaðum við að slá til,“ segir Edward.

Hann segir þau hjón hafa sett sig í samband við Sævar Helga, og ákveðið að taka þátt í gleðinni með honum. 

„Það er ekki hægt að lýsa þessu. Þetta var töfrum líkast,“ segir Edward. Hailey tekur undir og segir það hafa verið dásamlegt að deila upplifuninni með öllu þessu fólki. „Það er góð tenging á milli fólks og náttúrunnar, það er alveg á hreinu.“

Guðni Tómasson og Ólöf Jakobína Ernudóttir voru meðal þeirra sem …
Guðni Tómasson og Ólöf Jakobína Ernudóttir voru meðal þeirra sem fylgdust með við Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Ingileif

„Þetta er einfalt en á sama tíma flókið, og alveg ótrúlega fallegt,“ segir Guðni Tómasson, en hann og Ólöf Jakobína Ernudóttir voru meðal þeirra sem fylgdust með við Háskóla Íslands í dag. Voru þau sammála um að stemningin hefði verið mögnuð, og sólmyrkvinn hafi sameinað fólk. „Það var eins og verið væri að telja niður fyrir áramót,“ segir Ólöf og hlær.

Aðspurð hvort eitthvað hafi komið á óvart segjast þau ekki hafa verið viðbúin kuldanum, en hitastig lækkaði um hálfa gráðu þegar sólmyrkvinn náði hámarki. Þá segja þau bláleita birtu sem hafi myndast í kjölfarið hafa verið magnaða.

„Þetta er svo ótrúlega stórt og við verðum svo smá,“ segir Guðni.

Portúgalsi stjörnufræðingurinn Pedro Russo.
Portúgalsi stjörnufræðingurinn Pedro Russo. mbl.is/Ingileif

Portúgalsi stjörnufræðingurinn Pedro Russo er einn þeirra sem komið hefur að skipulagningu sólmyrkvahátíðarinnar, en hann segir undirbúning hafa staðið yfir síðustu sjö mánuðina. „Það er ótrúlegt að það sé komið að þessu núna. Ég hef unnið með Sævari að þessu síðan í ágúst,“ segir Pedro.

Hann segir sólmyrkvann ekki einungis fallegan, heldur geti hann jafnframt verið góð leið til að læra meira um alheiminn. „Við kennum fólki hvernig heimurinn virkar. Við erum pláneta sem snýst í kringum sólina og það gerir tunglið líka, en annað slagið er tunglið á milli sólar og jarðar.“

Hátíðin heldur áfram í Háskóla Íslands í dag, með fyrirlestrum í hátíðarsal skólans klukkan 17.

Þær Þóra, Eik, Helga og Ester, sem eru í 6. …
Þær Þóra, Eik, Helga og Ester, sem eru í 6. bekk í Melaskóla, fylgdust spenntar með og sögðust allar hafa meiri áhuga á stjörnufræði eftir að hafa kynnt sér sólmyrkvann. mbl.is/Ingileif
,,Þetta var æðislegt og alveg frábært. Það var skrýtið að …
,,Þetta var æðislegt og alveg frábært. Það var skrýtið að sjá hvernig dimmdi yfir, en það var frábært hvað allir voru miklir vinir í dag,'' sagði Friðrik B. Þór, sem fylgdist með fyrir utan HÍ í dag. mbl.is/Ingileif
Matthew og Tessa Miller frá Bandaríkjunum höfðu komið sér fyrir …
Matthew og Tessa Miller frá Bandaríkjunum höfðu komið sér fyrir við Hallgrímskirkju fyrir klukkan 9. Þau voru með sérútbúna myndavél og hlökkuðu mikið til að fylgjast með sólmyrkvanum. ,,Það er mjög gaman að koma hingað og sjá alla koma saman að fylgjast með þessu,'' segja þau. Upphaflega komu þau hingað til að kafa en urðu svo spenntari fyrir sólmyrkvanum. mbl.is/Ingileif
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert