Samfylkingin er ekki að ná eyrum kjósenda og þarf að taka áherslur og málflutning flokksins til endurskoðunar. Þetta kom fram í framboðsræðu þingkonunnar Sigríðar Ingibjargar Ingadóttir á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. Sigríður er í framboði til formanns flokksins.
„Eins og allir vita hefur Samfylkingin ekki náð sér á strik eftir síðustu Alþingiskosningar. En við höfum fylgi að sækja eins og góð kosning flokksins í Reykjavík og víðar í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra sýnir. Árangur flokksins á landsvísu er því ekki í samræmi við raunhæfar væntingar,“ sagði Sigríður.
Sagði hún jafnframt að fyrsta skrefið til að ná betri árangri er að viðurkenna vandann. „Við erum ekki að ná eyrum kjósenda, þrátt fyrir að við völd sé óvinsæl og ósvífin hægristjórn. Áherslur flokksins og málflutning þarf því að taka til endurskoðunar. Samfylkingin á ekki að vera flokkur verðtryggingar og banka í hugum fólks, eða staðnaður kerfisflokkur sem skilur ekki áhyggjur venjulegs fólks. Við vitum að við erum ekki slíkur flokkur en við verðum að tryggja að almenningur viti það líka.“
Sagðist hún ætla að hafa forystu um endurskoðun á áherslum og málflutningi flokksins verði hún kjörin formaður. Mun hún þá kalla til flokksmenn með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Lagði hún áherslu á að flokkurinn þyrfti að ganga hreint til verks með opnum huga og með réttu hjartalagi.
„Samfylkingin verður að kunna að hlusta á fólk, tala við fólk, taka gagnrýni og breyta því sem þarf að breyta. Við vitum ekki allt best og eigum ekki að þykjast vita allt best. Nútímalegur jafnaðarmannaflokkur þarf að vera opinn fyrir nýjum sjónarmiðum og breytingum. Við þurfum ekkert að óttast,“ sagði þingkonan.
„Við þurfum að opna faðminn og bjóða velkomið fólk sem yfirgaf okkur eða getur ekki stutt okkur vegna vonbrigða með afdrif stjórnarskrárinnar, óbreytts kvótakerfis og skuldamála heimilanna. Við þennan fjölbreytta hóp þarf að hefja samtal og byggja upp traust.“
Að sögn Sigríðar var Samfylkingin stofnuð til að sameina fólk um ákveðin grunngildi. „Sameinuð náum við árangri, sundruð færum við hægristjórn og öfgafólki völdin í landinu. Stjórnarskráin verður ekki endurskoðuð nema undir forystu Samfylkingarinnar. Það sama gildir um kvótakerfið og öflugan leigumarkað. Þessu þarf Samfylkingin að halda á lofti, ekki af hroka og yfirlæti, heldur til að bjóða fólk velkomið til að berjast fyrir sameiginlegum hugsjónum og gildismati,“ sagði Sigríður.
„Það var Samfylkingin sem varð við ákalli þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá og lagði áherslu á að það ferli væri opið og lýðræðislegt. Samfylkingin verður að halda stjórnarskránni á lofti og tala skýrt fyrir nauðsyn breytinga. Það hefur flokkurinn ekki gert með nægilega skýrum hætti frá síðustu kosningum. Á því mun sannarlega verða breyting verði ég kjörinn formaður flokksins.“
Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að Samfylkingin skerpi áherslurnar og leggi aukna áherslu á mannsæmandi laun og íbúðir fyrir fólkið í landinu, mannréttindi, réttlæti og önnur baráttumál jafnaðarmanna.
„Ójöfnuður fer vaxandi hér á landi sem annarstaðar. Mjög efnað fólk eignast sífellt meira og notar fjárhagslega yfirburði sína til að grafa undan samfélaginu sem við eigum öll saman. Stærsta áskorun samtímans er að stöðva þessa óheillaþróun og tryggja öllum mannsæmandi kjör. Það verður aðeins gert með sterkri verkalýðshreyfingu og öflugum stjórnmálaflokki sem berst fyrir jöfnuði. Samfylkingin er og á ætíð að vera slíkur flokkur. Við þurfum öfluga Samfylkingu sem stendur með því sem við eigum öll sameiginlegt. Við þurfum að verja börnin okkar, mömmur okkar og pabba, fólk sem er öðruvísi, unga fólkið sem flytur að heiman og fólkið sem nær ekki endum saman af því kaupið er of lágt og vextirnir of háir,“ sagði Sigríður.
Sagði hún einnig að hugsjónir Samfylkingarinnar eigi sér hljómgrunn hjá þjóðinni. „Okkar verkefni er að tryggja að þjóðin trúi því að Samfylkingin fylgi hugsjónum sínum, en hafi ekki orðið að steinrunnum kerfiskalli án hugsjóna og erindis.“