Ekki hefur verið krafist þess að íslensk lögregluyfirvöld handtaki og framselji Alfreð Örn Clausen, sem grunaður er um stórfelld fjársvik í Bandaríkjunum, til lögregluumdæmisins í San Bernardino í Kaliforníu. Þetta kemur fram í upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Maurice Landrum, yfirrannsóknarlögreglmaður við lögregluembættið í San Bernardino að Alfreð Örn sé eftirlýstur flóttamaður. Kemur jafnframt fram að embættið sé að skoða möguleikann á því að fá Alfreð Örn framseldan til Bandaríkjanna.
Í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is fyrr í dag kom fram að ekki hafi verið haft samband við ráðuneytið frá Kaliforníu og er því Alfreð Örn ekki í varðhaldi. Má jafnframt gera ráð fyrir því að hann sé enn hér á landi.
Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum er Alfreð talinn hafa ásamt tveimur öðrum svikið meira en 44 milljónir dollara, rúma sex milljarða króna, út úr hópi fólks með loforðum um að breyta lánum þess.
Í yfirlýsingu sem barst frá lögmanni Alfreðs í síðustu viku lýsir Alfreð sig saklausan í málinu. Hann lítur svo á að hann sé hugsanlega vitni í málinu en ekki sakborningur. Kemur jafnframt fram að Alfreð sé reiðubúinn að aðstoða embættið með hverjum þeim hætti sem þurfa þykir til þess að upplýsa málið. Er Alfreð einnig tilbúinn til þess að gefa skýrslu hjá Ríkislögreglustjóra ef þurfa þykir.
Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er í gildi er tvíhliða framsalssamningur milli Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1902, auk viðbótarsamnings frá 1905. Þess má þó geta að í 2. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er lagt bann við því að framselja íslenska ríkisborgara. Íslenskir ríkisborgarar hafa þó verið afhentir til Danmerkur á grundvelli laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), en þau lög tóku gildi 16. október 2012.