„Einhver lítill flokkur úti í bæ“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Alþingi.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsfundur Samfylkingarinnar, sem fram fór um helgina, var umræðuefni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Kom Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, í pontu og spurði Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um viðhorf ríkisstjórnarinnar þegar það kemur að olíuleit á Drekasvæðinu.

Í ályktun starfshópar Samfylkingarinnar sem kynnt var um helgina um olíuleit á Íslandsmiðum kemur fram að mistök hafi verið gerð með olíuleit á Drekasvæðinu. Kom jafnframt fram að lýsa þurfi því yfir að Íslendingar ætli sér ekki að nýta hugsanlega jarðorkukosti í lögsögu sinni.

„Þykir mörgum það mjög skrýtið þar sem háttvirtur þingmaður, Össur Skarphéðinsson, barðist fyrir þessum málaflokki er hann var iðnaðarráðherra á sínum tíma. Það héldu allir það þetta væri stefna Samfylkingarinnar en það er nú þannig að stundum er Samfylkingin kölluð  einsmálsflokkur en nú er ESB-málið dautt og þá er Samfylkingin að falla frá þessu líka,“ sagði Vigdís í dag.

Í fyrirspurn Vigdísar var spurt hvort eitthvað hefði breyst í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og jafnframt hvort  ráðherrann teldi ríkið skaðabótaskylt ef ný stefna Samfylkingarinnar næði fram í þessum flokki. 

Í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kom fram að stefna ríkisstjórnarinnar þegar það kemur að olíuleit á Drekasvæðinu hafi ekki breyst. Sagði hún að sú stefna hefði verið kirfilega skjalfest í stjórnarsáttmála á þann hátt að stjórnin mundi beita sér að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda gæti hafist sem fyrst ef þær yndust á annað borð. 

Sagði hún jafnframt að stefnubreyting Samfylkingarinnar hefði komið sér verulega á óvart. „Hér situr í salnum fyrrverandi olíumálaráðherra sem fór mikinn í þessu máli,“ sagði Ragnheiður og rifjaði jafnframt upp að þau leyfi sem sett voru af stað í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar hefðui ekki aðeins verið rannsóknarleyfi heldur til rannsóknar og vinnslu. „Það er mikilvægt að því verði haldið til haga,“ sagði ráðherrann. 

Bætti Ragnheiður við að 28. janúar síðastliðinn hefðu á Alþingi verið samþykkt lög með atkvæðum allra þingmanna Samfylkingarinnar um stofnun Ríkisolíufélags, en einn liður í þeirri stofnun væri að gera Íslendinga tilbúna til þess að vinna olíu og taka þátt í starfi Norðmanna ef til þess kæmi. Sagði hún jafnframt að hún myndi kynna sér skaðabótaskyldu íslenska ríkisins í þessu máli yrði fallið frá áformunum. 

„Það er alveg ótrúlegt að rýna í þennan landsfund Samfylkingarinnar en hann sannar það að flokkurinn logar stafnanna á milli og er algjörlega í tætlum fyrst það er horfið frá nokkurra mánaða atkvæðagreiðslu,“ sagði Vigdís í svari sínu við svari Ragnheiðar. 

Sagðist hún ánægð með að stjórnin ætlaði sér að halda áfram á sinni braut þrátt fyrir stefnubreytingu Samfylkingarinnar. 

„Maður er nú hættur að láta sér koma nokkur hlutur á óvart sem gerist þar inni, eins og þessi mikla stefnubreyting,“ sagði Vigdís og sagði hana í anda Vinstri grænna. „Sú ríkisstjórn sem var eitt sinn við völd sprakk m.a. á olíumálum og það vita nú allir hvernig það fór,“ sagði Vigdís.

„Ég fagna því að þetta sé með þessum hætti og það hafi engin áhrif á störf á ríkisstjórnarinnar,“ bætti hún við. „Þó það nú væri að það að einhver lítill flokkur úti í bæ væri að álykta hefði áhrif á störf ríkisstjórnarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert