Hystería í aðdraganda sólmyrkvans

Ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd af þaki húss Árvakurs í …
Ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd af þaki húss Árvakurs í Hádegismóum þegar sólmyrkvinn var að bresta á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reglur Reykjavíkurborgar um gjafir til skólabarna gerðu það að verkum að sólmyrkvagleraugun sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness vildi gefa grunnskólabörnum voru gefin skólum borgarinnar sem námsgögn. Annars staðar á landinu voru þau gjöf til barnanna sjálfra.

Þetta segir Sævar Helgi Bragason, formaður félagsins, sem fékk fjölda símtala í aðdraganda sólmyrkvans á föstudag þar sem gleraugnagjöf og -sala Stjörnuskoðunarfélagsins var gagnrýnd. Meðal óánægðra voru leikskólastarfsmenn og aðilar í ferðaþjónustu.

Sævar segist ekki hefðu getað ímyndað sér fjaðrafokið sem myndaðist í kringum framtak félagsins.

„Frá okkar sjónarhóli séð vildum við gleðja krakkana fyrst og fremst, það var alveg ljóst af okkar hálfu. En af því að reglurnar í Reykjavík eru eins og þær eru þá ákváðum við, í stað þess að koma ekki gleraugum til barna í Reykjavík, að beygja okkur undir þær og samþykkja það að gleraugun yrðu gefin til skólanna sem námsgögn. En annars staðar á landinu var þetta gjöf til krakkanna, og kennara og starfsmanna,“ segir Sævar, en Stjörnuskoðunarfélagið gaf samtals 54 þúsund gleraugu til grunnskólanemenda og -starfsfólks á landinu öllu.

Reykvískum nemendum mismunað eftir skólum

Sævar tekur undir að hafa heyrt að í sumum skólum í Reykjavík hafi börnin fengið að eiga sólmyrkvagleraugun. Í öðrum skólum, t.d. Seljaskóla, ákváðu skólastjórnendur að halda þeim eftir. Samkvæmt upplýsingum sem Sævar fékk hjá skóla- og frístundasviði borgarinnar, var skólastjórnendum í sjálfsvald sett hvort þeir leyfðu börnunum að eiga gleraugun eða ekki.

Sævar segir gleraugun vissulega ágæt kennslugögn; með þeim megi t.d. fylgjast með sólblettum. Það að sum börn hafi fengið að eiga gleraugun en önnur ekki endurspegli hins vegar hversu óskýrar reglur borgarinnar um gjafir til skólabarna eru.

„Reglurnar útiloka mörg svona verkefni sem eru alls ekki sambærileg við það ef einhver banki væri t.d. að gefa reglustrikur með lógóinu sínu. Það er töluvert meiri markaðssetning í því en ef einhver er að gefa kennslugögn til að fylgjast með náttúruviðburði, sem eru ómerkt í þokkabót,“ segir hann. „Mér finnst töluverður munur á þessu tvennu en í raun útiloka reglurnar bæði, og þess vegna finnst mér persónulega að það þurfi að breyta þeim.“

Sævar segir marga skólastjórnendur og kennara á sama máli en nokkrir þeirra hafi tjáð sér að þeir hefðu farið á svig við reglurnar í þessu tilfelli, ef til þess hefði komið.

Þá segir hann að þrátt fyrir að gjöf félagsins utan Reykjavíkur hafi verið til krakkanna sjálfra, hafi hann heyrt af því að einhverjir skólar hafi haldið gleraugunum eftir.

Frekir og dónalegir leikskólastarfsmenn

Það var alltaf hugsunin segir Sævar, að grunnskólabörnin fengju að eiga gleraugun til minningar um það einstaka sjónarspil sem átti sér stað á föstudag og til að fylgjast með myrkvum í framtíðinni. Hugmyndina að gjöfinni fékk Sævar fyrir um hálfu ári og hugðist á tímabili fjármagna hana með sparifé sínu, þegar illa gekk að vekja áhuga mögulegra styrktaraðila.

Almennur áhugi á verkefninu vaknaði ekki fyrr en seint og síðar meir, og korter í myrkva urðu margir reiðir Sævari og félögum fyrir að vera ekki stórtækari í áætlunum sínum.

„Síðustu daga fyrir myrkvann stoppaði ekki síminn hjá mér og tölvupósturinn fylltist. Ég náði ekki að svara helmingnum,“ segir Sævar. „Við ákváðum fyrst og fremst, af því að við fengum ekki stuðning frá neinum fyrir þetta verkefni nema Hótel Rangá, sem við erum afskaplega þakklát fyrir, að hugsa þetta verkefni fyrir grunnskólanemendur og grunnskólakennara líka, og færa þeim öllum gleraugu. En svo til að reyna að leyfa leikskólanum að vera með ákváðum við að senda öllum leikskólum á Íslandi gleraugu.

Við sendum þeim kannski 3-5 gleraugu og útskýrðum að við vildum óska að við gætum gert miklu meira en við hefðum ekki ráð á því og svo framvegis. Þetta væri alla vegna viðleitni okkar til að leyfa fólki að vera með og gerði því kleift að skiptast á og horfa.

En þá fékk maður bara gusuna yfir sig; að þetta væri ömurlegt og algjör vonbrigði og ótrúlega lélegt og vð værum að gera þeim bjarnargreiða og í furðulegasta tilvikinu var talað um mannréttindabrot fyrir að mismuna grunnskólabörnum og leikskólabörnum,“ segir Sævar.

Um var að ræða símhringingar frá leikstólastjórnendum og -kennurum, en Sævar vill taka skýrt fram að honum bárust einnig fjölmargar jákvæðar hringingar frá leikskólastarfsfólki sem var afar ánægt með framtakið og fór að ráðum félagsins um að leyfa krökkunum að skiptast á.

Vildu láta veðrið ráða kaupum og kvörtuðu vegna takmarkaðs framboðs

Félaginu tókst að fjármagna gleraugnagjöfina með því að selja gleraugu til almennings og ýmissa aðila, m.a. tímaritsins Lifandi vísindi sem keypti 6.000 sólmyrkvagleraugu fyrir áskrifendur sína. Átakið allt útheimti mikla vinnu og síðustu dagana fyrir myrkvann voru Sævar og annar félagi í Stjörnuskoðunarfélaginu í fullri vinnu við gleraugnaumsýslu.

Sævar segir að vel hefði verið hægt að panta fleiri gleraugu ef skólayfirvöld eða ferðaþjónustuaðilar hefðu sýnt sólmyrkvanum áhuga í tíma, en tímasetning viðburðarins hafði legið fyrir um þónokkurt skeið.

En hvað var það sem ferðaþjónustuaðilar höfðu upp á Stjörnuskoðunarfélagið að klaga?

„Sumir vildu láta taka frá fyrir sig gleraugu og sjá síðan bara til hvernig veðrið yrði og geta þá bara keypt þetta tveimur dögum fyrir myrkvann. En þegar við erum að fjármagna samfélagsverkefni þá finnst mér það bara ekkert ganga upp. Fyrstir koma fyrstir fá, að sjálfsögðu. Það var t.d. eitt sem menn gagnrýndu. Og svo voru einhverjir ósáttir við að við ættum ekki nógu mörg stykki. Eins og við séum bara eitthvað fyrirtæki sem getur ráðið við það.

Menn voru að vinna í þessu í sjálfboðavinnu og við vorum bara að reyna að láta gott af okkur leiða, en sköpuðum einhverja hysteríu sem ég hefði aldrei nokkurn tímann getað trúað. Að þetta gengi kaupum og sölum á netinu fyrir mörg þúsund krónur. Og það súrrealískasta af öllu var að ferðaþjónustuaðilar væru að hringja í skólana og bjóðast til að kaupa gleraugun af þeim,“ segir Sævar.

Hann nefnir dæmi; að skólastjórnendum á Stokkseyri og Eyrarbakka hafi verið boðnar fúlgur fjár fyrir sólmyrkvagleraugun sem skólanum bárust.

Sævar segir viðbrögðin við átaki Stjörnuskoðunarfélagsins þó hafa verið almennt mjög góð, en þess ber að geta að félagið gaf blindum nemendum einnig gögn til að upplifa sólmyrkvann, í samstarfi við Þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra.

„Þau fengu upphleyptar myndir af sólinni með skýringum um hvað þau væru að finna og leiðbeiningar til kennara þeirra eða stuðningsfulltrúa um hvernig væri hægt að leyfa þeim að finna myrkvann. Og ég vona innilega að þeir hafi gert það,“ segir Sævar.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Babak Tafreshi/National Geographic
Sólmyrkvagleraugun margfrægu.
Sólmyrkvagleraugun margfrægu.
Sólmyrkvi í hámarki í Reykjavík föstudaginn 20. mars 2015.
Sólmyrkvi í hámarki í Reykjavík föstudaginn 20. mars 2015. mbl.is/Eggert
Feðgarnir Bjarni Ingvar Jóhannsson og Jóhann Bjarnason voru sammála um …
Feðgarnir Bjarni Ingvar Jóhannsson og Jóhann Bjarnason voru sammála um að gaman væri að fylgjast með sólmyrkvanum, sem stæði heldur betur undir væntingum. mbl.is/Ingileif
Svona sást sólmyrkvinn á Snæfellsnesi. Þar voru skilyrðin ekki mjög …
Svona sást sólmyrkvinn á Snæfellsnesi. Þar voru skilyrðin ekki mjög góð. mbl.is/Alfons
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka